Frestun Hvalárvirkjunar: skálað í kampavíni

Tómas Guðbjartsson fagnar. Mynd af facebooksíðu Tómasar.

Sú ákvörðun Vesturverks ehf að hægja á undirbúningi að Hvalárvirkjun með því að segja upp starfsmönnum sínum og loka skrifstofunni á Ísafirði hefur mælst vel fyrir meðal þeirra sem hafa lagst gegn virkjuninni. Landvernd fagnaði frestuninni og segir nú gefast tækifæri til þess að tala fyrir friðlandi á Ströndum.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar þakkar Tómasi Guðbjartssyni, lækni sérstaklega fyrir hans þrautsegju við að kynna svæðið fyrir Íslendingum.

Tómas fagnaði tíðindunum  með því að skála í kampavíni. „Kældi Gulu Ekkjuna (Veuve Clicquot) fyrir gamlárskvöld en var á vakt. Hét sjálfum mér því að stúta henni þegar góð tíðindi bærust úr baráttunni um Hvalárvirkjun. Þau bárust í dag – þegar VesturVerk var lagt niður og HS orka setti framkvæmdir í frost.“ Segir hann að „einum stórkostlegasta fossi landsins – Drynjanda – sem er á hæð við Hallgrímskirkju – er forðað undan fallöxi græðgisafla.“ segir hann í færslu á facebook síðu sinni.

Borgarstjóri fagnar

Margir samfagna Tómasi. Meðal þeirra er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.  Tveir alþingsmenn lýsa ánægju sinni. Það eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Helga Vala Helgadóttir. Fimm fyrrverandi alþingismenn og tveir forsetaframbjóðendur er á sömu skoðun. Það eru Guðrún Agnarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Magnús Orri Schram og Sæunn Stefánsdóttir.  Auk Guðrúnar Agnarsdóttur er það Andri Snær Magnason sem hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands.

 

DEILA