Forsætisráðuneytið: 4 störf af 49 gætu verið án staðsetningar

Störf fjögurra sérfræðinga af 32 í Forsætisráðuneytinu gætu verið unnin utan ráðuneytisins.

Þetta kemur fram á Alþingi í skriflegu svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra við fyrirspurn Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur.

Alls eru 49 störf í ráðuneytinu og eru störf ráðuneytisstjóra, 7 skrifstofustjóra, fjögurra stjórnarráðsfulltrúa og 5 umsjónarstarfa talin vera þess eðlis að þau verði ekki unnin annars staðar.

Albertína spurði um aðgerðaráætlun byggðaáætlunar  og segir svarinu að nýverið hafi ráðuneytið lokið við skilgreiningu starfa sem unnt væri að vinna utan ráðuneytisins. Niðurstaða greiningar gefur til kynna að stöðugildi fjögurra sérfræðinga væri unnt að auglýsa án staðsetningar yrðu störfin laus til umsóknar.

Fram kemur einnig í svarinu að Ráðuneytið hafi ekki ráðið í starf utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við áætlunina.

Loks spurði Albertína Elíasdóttir hvort ráðuneytið hafi mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024.

Í svari forsætisráðherra segir að fjárveitingar, þróun verkefna og ákvarðanir um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta hafi úrslitaáhrif á þróun fjölda starfsmanna í forsætisráðuneytinu sem og í öðrum ráðuneytum og ráði mestu, ásamt starfsmannaveltu, hversu hratt gengur að fylgja eftir aðgerðaáætlun byggðaáætlunar um störf án staðsetningar. „Ráðuneytið byggir á framangreindri greiningu þegar störf verða auglýst laus til umsóknar í ráðuneytinu og greinir jafnframt ný störf sem kunna að verða til með hliðsjón af þessu.“

DEILA