Fiskeldi: sjávarútvegsráðherra tefur fjárfestingar

Bergþór Ólason, alþingismaður Norðvesturkjördæmis fyrir Miðflokkinn kvaddi sér hljóðs á Alþingi í gær og gerði athugasemdir við störf sjávarútvegsráðherra en hann hefur ekki enn sett reglugerðir um fjölmörg atriði sem varða framkvæmd laga um fiskeldi.

„Ég vil við þetta tækifæri vekja athygli á og eftir atvikum kalla eftir viðbrögðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna þess að nú tæpu ári eftir að ný lög um breytingu á ýmsum lögum sem tengjast fiskeldi voru samþykkt, þann 20.júní 2019, sem ætlað var að ramma inn rekstrar umhverfi fiskeldis og þær umhverfislegu kröfur sem þeirri starfsemi er uppálagt að starfa innan, hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra enn ekki sett reglugerð sem honum var uppálagt að setja, sem aftur veldur því að þær stofnanir sem fjalla um eldistengd mál  eiga erfitt með að vinna málin áfram.“

Tiltók Bergþór einar 8 lagagreinar þar sem ráðherra er uppálagt að setja reglugerðir. Sérstaklega tiltók hann tvær lagagreinar. Annars vegar 3. greinina sem ber yfirskriftina Skipting hafsvæða í eldissvæði, auglýsing og úthlutun þeirra og á að mæl fyrir um nánari ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, um auglýsingu, úthlutun eldissvæða, skilmála úthlutunar, hvað teljist hagstæðasta tilboð og afturköllun tilboðs.

Hin greinin sem Bergþór tiltók er 7. greinin , þar sem fjallað er um Áhættumat erfðablöndunar þar sem mæla skal fyrir um bestu fáanlegrar tækni og þess hvernig best verði stuðlað að sem umhverfisvænstum rekstri.

Afleiðingin af verkleysi ráðherrans sagði Bergþór vera að þær stofnanir sem halda á verkefnum á grundvelli þessara laga telja sig að hluta til ekki geta unnið mál áfram vegna þessa. skoraði þingmaðurinn  á ráðherrann „að taka sér tak, klára vinnu við þær reglugerðir sem annað hvort orsaka það að framkvæmdir og fjárfestingar hafa frestast eða að umhverfismál hafi ekki verið færð til þess vegar sem horft er til.“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra tók ekki til máls í þessari umræðu.

DEILA