Drangavík: viljum ekki gerast þjófsnautar

Hið umdeilda jarðarmerkjakort sem unnið var fyrir Sif Konráðsdóttur.

Þrír eigendur jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi hafa ákveðið að selja 22,5% hlut sinn í jörðinni. Það eru þrjár systur Sigríður, Guðrún Anna og Ásdís Gunnarsdætur. Þær segja í yfirlýsingu að ástæðan sé sú að þeim hafi verið stefnt fyrir dóm af frændfólki í landamerkjamáli þar sem tilgangurinn sé að fá viðurkennt að Drangavík eigi land sem tilheyri Engjanesi. Kröfurnar séu í andstöðu við það sem faðir þeirra og frændur upplýstu þær um varðandi jarðarmörk.  Þær segjast vilja forðast slíkt og hafi því ákveðið að selja hlut sinn. Þær segjast ekki vilja sverta minningu föður síns og bróður hans og standa í deilum um þeirra orð. Þær segjast aðeins eiga það sem faðir þeirra og bróðir hans áttu og vilji ekki gerast þjófsnautar.

Yfirlýsing þeirra systra er hér í heild sinni:

Stefnt vegna jarðarmarka

Ákvörðun um sölu er tekin í kjölfar þess að okkur systrunum á Eyri barst sú frétt í fjölmiðlum að frændfólk okkar og meðeigendur að Drangavík hefðu stefnt okkur fyrir dóm þann 30. júní næstkomandi út af jarðamörkum Drangavíkur.

 

Fyrir málinu er skrifuð Lára Ingólfsdóttir, við erum bræðrabörn.

 

Stefnan gengur út á að færa út jarðamörk Drangavíkur inn á land Engjaness og Ófeigsfjarðar samkvæmt nýju korti sem teiknað var af Sigurgeiri Skúlasyni 2019.

 

Nýtt kort teiknað af jarðarmörkum að beiðni Sifjar Konráðsdóttur

Nýja kortið er ekki á samræmi við þær upplýsingar sem faðir okkar Gunnar Guðjónsson og föðurbróðir Ingólfur Guðjónsson fyrrum eigendur Drangavíkur greindu Ásgeiri Gunnar Jónssyni frá 1991-93 þegar hann vann að afmörkun lóða og jarðarmarka fyrir þá bræður og Ólaf son Ingólfs. Frumgögn þeirrar vinnu eru enn til.

 

Á þeim tíma var Ólafur Ingólfsson eigandi Engjaness eftir afa sinn Guðjón Guðmundsson á Eyri. Ólafur seldi núverandi eiganda Engjanes og þá væntanlega  með þeim jarðamörkum sem hann, faðir hans og föðurbróðir voru sammála um.

 

Fyrrnefndir þrír eigendur þessara jarða voru sammála um að vatnsföll og vatnaskil réðu jarðamörkum Drangavíkur og Engjaness samkvæmt ríkjandi hefð.

 

Upplýst er að Sif Konráðsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra, fékk Sigurgeir Skúlason, landfræðing til að draga upp ný jarðamörk fyrir Drangavík, sem að eigin sögn segist ekki þekkja til þeirra hefða að vatnsföll og vatnaskil ráði jafnan landarmörkum á Ströndum og reyndar víðar. Fyrstu útgáfu þess korts sem hann teiknaði var hafnað að hans sögn. Þetta upplýsti hann símtali við Ásgeir Gunnar hinn 25.6.2019. Í framhaldi af því var óskað eftir því að Sigurgeir gerði nýtt kort sem er grundvöllur að málsókn þeirri sem hér um ræðir. Það kort birtist okkur sem erum landeigendur að hluta fyrst í fjölmiðlum. Allt var þetta gert og greitt fyrir án vitundar okkar sumarið 2019. Ef nýja kortið ætti sér einhverja stoð í raunveruleikanum þá myndi jörðin okkar tvöfaldast að stærð þannig að það ætti nú að vera okkar hagur að taka nýja kortinu fagnandi en við vitum betur því faðir okkar og frændur heitnir sem við erfðum landið af upplýstu okkur um jarðarmörkin. Við getum ekki hugsað okkur að taka þátt í því að ómerkja orð þeirra eins og stefnendur gera með kæru sinni. Það skal tekið fram að Sif Konráðsdóttir er ekki eigandi að Drangavík og er nú samkvæmt þjóðskrá með aðsetur í Botswana. Sif þessi var um skamman tíma aðstoðarmaður umhverfisráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar en hrökklaðist úr starfi vegna meints misferlis með fé skjólstæðinga sinna sem voru á barnsaldri.

 

Ófeig náttúruvernd bakvið landarmarkamál á Ströndum?

Það hefur komið fram hjá frændfólki okkar að stefnendur þurfi engan kostnað að bera hvernig sem málið fer þar sem „umhverfissjóður“ muni bera kostnað af málsókninni. Getur verið að Ófeig náttúruvernd kt. 471118-0280 muni bera kostnaðinn af málsókninni? Samkvæmt fyrirtækjaskrá er Sif Konráðsdóttir formaður og prókúruhafi í Ófeig náttúruvernd og Lára Ingólfsdóttir varamaður í stjórn. Þar kemur jafnframt fram að tilgangur félagsins sé að standa vörð um óbyggð víðerni, fossa og stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum og nágrenni til framtíðar.

 

Upplýst er að Ófeig náttúruvernd hefur fengið þrisvar sinnum 20.000 dollara frá Nell Newman Foundation í Kaliforníu og eina milljón frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar kenndan við Hagkaup. Spurning er hvort hinn bandaríski sjóður, sem örugglega er vandur að virðingu sinni, þekkir orðspor formanns Ófeigs náttúruverndar og málavexti hér á Íslandi?

 

Nú er það svo að landamerkjamál eru einkamál.  Það vekur upp spurningar hvað standi að baki þegar náttúruverndarsjóður fjármagnaður af ótengdum erlendum og innlendum aðilum er farinn að blanda sér í landamerkjamál einstaklinga á Ströndum. Nánum ættingjum okkar og sameigendum að Drangavík sem við höfum haft góð samskipti við er att út í það stefna okkur inn í eignaréttamál og neyða okkur til að standa í málafærslum og kostnaði fyrir þá eina sök að við viljum ekki  taka þátt í að sverta minningu föður okkar Gunnars Guðjónssonar og föðurbróður Ingólfs Guðjónssonar frá Eyri og standa í deilum um þeirra orð. Við öll frændsystkinin eignuðumst aðeins það sem bræðurnir áttu. Við systurnar viljum ekki gerast þjófsnautar. Sennilega verðum við nú nauðbeygð að ganga gegn frændfólki okkar  og krefjast þess að landamerkjakrafa þeirra verði ekki samþykkt fyrir dómi. Þetta vijum við forðast og höfum við því ákveðið að bjóða okkar hlut í Drangavík alls 22,5% hlut til sölu og óskum eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum.

 

Sigríður Gunnarsdóttir

Guðrún Anna Gunnarsdóttir

Ásdís Gunnarsdóttir

DEILA