Byggðastofnun: lánastofnun landbúnaðarins

Lán til landbúnaðar eru langfyrirferðarmest í lánasafni Byggðastofnunar. Um síðustu áramót voru útlán stofnunarinnar um 15 milljarðar króna. Lán til landbúnaðar voru um helmingur þess. Þá voru lán til ferðaþjónustu um 4 milljarðar króna.

Á síðasta ári voru lánsumsóknir langflestar frá Suðurlandi. Þær voru 32% að fjölda til og um 50% af þeirri fjárhæð sem samtals var sótt um. Alls bárust í fyrra 136 beiðnir um 6,2 milljarða króna lán. Áberandi fæstar umsóknir komu frá Vestfjörðum. Þaðan komu aðeins 14 umsóknir að upphæð 341 milljón króna og voru 11 þeirra samþykktar.

Þessar upplýsingar koma frá í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir 2019 sem nýlega hefur verið gefin út og kynnt á ársfundi stofnunarinnar.

Hreinar vaxtatekjur stofnunarinnar voru 509 m.kr. miðað við 468 m.kr. árið 2018. Rekstrartekjur voru 645 m.kr. og rekstrargjöld 1.059,5 m.kr. Framlög í afskriftarreikning útlána og matsbreyting hlutafjár námu 182 m.kr. Hagnaður ársins var því 95,4 m.kr. miðað við 113,4 m.kr. hagnað árið áður. Samkvæmt lögum skal Byggðastofnun njóta framlags úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni og nam það 417 m.kr. á árinu 2019. Eigið fé í árslok var 3.216 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og hækkaði sem nam hagnaði ársins.

 

 

DEILA