Arnarlax: skattasporið 644 m.kr.

Frá laxeldi í Arnarfirði. Mynd: Arnarlax.

Batnandi afkoma í fiskeldi og uppskera stórra seiðaárganga skilar Íslendingum nú auknum tekjum af greininni frá því sem var. Svonefnt skattaspor Arnarlax 2019 sem tekur til aflagjalda, fjármagnsskatts og ýmissa leyfisgjalda, auk launatengdu gjaldanna sem starfsfólk Arnarlax greiddi árið 2019, varð samanlagt 644 milljónir króna.

Heildarupphæðin, skattaspor fyrirtækisins (e. tax footprint), hækkaði um 30% milli ára, aðallega vegna hærri launagreiðslna og aukins útflutnings.

Þetta á sér skýringar í batnandi afkomu í fiskeldi og uppskeru stórra seiðaárganga og það skilar landsmönnum  auknum tekjum af greininni frá því sem var.

Í fréttatilkynningu frá Arnarlax er þetta rakið.

Launakostnaður hér á landi 1,3 milljarðar

Það er endurskoðunarskrifstofan PWC á Íslandi sem hefur tekið saman skattaspor Arnarlaxsamstæðunnar, sem samanstendur af fiskeldisfyrirtækjunum Arnarlaxi, Fjarðalaxi og Bæjarvík. Skattaspor er yfirheiti allra þær skattgreiðslna og gjalda sem skila sér í opinbera sjóði og leiða af starfsemi eins fyrirtækis. Hjá Arnarlaxi og tengdum félögum starfa nú á annað hundrað starfsmenn og nam heildarlaunakostnaður samstæðunnar í fyrra 1.338 millj. kr. sem er hækkun um 269 milljónir á milli ára. Í skýrslunni sem PWC vann fyrir Arnarlax sést að 82% greiddra skatta og gjalda Arnarlax runnu til ríkisins og 18% til sveitarfélaga.

Miklar fjárfestingar eru farnar að skila sér en ekki enn komnar í plús

Arnarlax hefur staðið í mikilli uppbyggingu síðustu ár og hluthafar fyrirtækisins hafa staðið straum af miklujm fjárfestingum í búnaði, aðstöðu og fleira. Enn er unnið er að stækkun seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins í Þorlákshöfn og í Tálknafirði til þess að aðlaga seiðaframleiðslu að framleiðsluheimildum í sjó. Félagið hefur ekki skilað hagnaði á uppbyggingartíma og hefur því ekki greitt tekjuskatt fram til þessa en 2019 er fyrsta rekstrarárið sem felur í sér hagnað.

Greiddi 46 milljónir í Umhverfissjóð sjókvíaeldis á síðasta ári

Árið 2019 greiddi Arnarlax 46 milljónir króna til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis. Greiðslur Arnarlax til sjóðsins hafa hækkað um 70% frá árinu 2017. Á árinu 2018 úthlutaði sjóðurinn 5,5 millj. kr. til Arnarlax og samstarfsaðila vegna rannsókna en fyrirtækið fékk engar úthlutanir úr sjóðnum á liðnu ári

DEILA