Vesturbyggð: slæmt ástand vega

Miklidalur er fjallvegur milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar.

Bæjarráð Vesturbyggðar vekur athygli á úttekt Vegagerðarinnar á klæðningum á Vestfjörðum sem gefin var út í júlí 2019. Þar kom fram að Bíldudalsvegur er 100% ónýtur vegur. Við það bætist að vegurinn kemur óvenju illa undan vetri og er gríðarleg slysahætta á mörgum stöðum vegarins. Þetta kemur fram í samþykkt bæjarráðsins sem gerð var á fundi þess í gær.

Flýta ber vegaframkvæmdum

Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að flýta vegaframkvæmdum á þessari leið, en hluti er þegar á samgönguáætlun. Ef fram fer sem horfir má búast við auknu álagi á veginn með tilliti til stóraukinna þungaflutninga bæði innan svæðis sem og til og frá svæðinu. Hafa ber í huga að tvö framleiðslufyrirtæki í Vesturbyggð eru skilgreind sem kerfislega og efnahagslega mikilvægar einingar, Arnarlax ehf. og Oddi ehf. Fjöldi starfsfólks þarf að komast til og frá vinnu og því þurfa samgöngur milli þéttbýlisstaða að vera greiðar, þar sem búseta starfsfólks er dreifð yfir sunnanverða Vestfirði. Ein af forsendum þess að atvinnurekstur af þessum toga geti þrifist og að svæðið skuli skilgreint sem eitt atvinnusvæði eru góðar og greiðfærar samgönguleiðir.

Bæjarráð Vesturbyggðar skorar á stjórnvöld að taka þessu máli alvarlega og að ástandi vega í Vesturbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum verði veitt aukin athygli og brugðist verði við ástandi veganna af miklum krafti.

Jarðgöng milli byggðarlaga

Í Vesturbyggð þarf að huga að jarðgangnaframkvæmdum svo tengja megi þéttbýliskjarna sunnanverða Vestfjarða saman með viðunandi hætti með jarðgöngum um Hálfdán (500 m.yfir sjávarmáli) og Mikladal (369 m. yfir sjávarmáli). Þá þurfa vegir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum að vera greiðfærir til þess að íbúar geti sótt nauðsynlega þjónustu og hægt sé að koma vörum til og frá svæðinu. Í því samhengi er viðeigandi að ítreka mikilvægi þess að áform um veglagningu um Gufudalssveit, upp úr Arnarfirði og Dynjandisheiði verði flýtt.

DEILA