Vestfirðir: Byrjað að aflétta takmörkunum

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur ákveðið í samráði við sóttvarnalækni, landlækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að sérstakar takmarkanir sem settar voru á 5. apríl falla úr gildi í Súðavík, á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Áfram gilda á þessum stöðum sömu takmarkanir og á landsvísu.

Takmarkanir sem settar voru 1. apríl í Bolungavík, Hnífsdal og á Ísafirði verða hins vegar óbreyttar eftir 26. apríl um óákveðinn tíma.

Búast má við frekari ákvörðun frá aðgerðastjórn almannavarna á grundvelli niðurstaðna úr sýnatökum og smitrakningu í byrjun næstu viku.

Tvö smit greindust síðasta sólarhringinn, bæði á Vestfjörðum. Í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að síðustu viku hafi stór hluti þeirra smita sem greinst hafa á landinu verið á Vestfjörðum. Smitin eru þó nær eingöngu í Bolungarvík og á Ísafirði. Í skimun fyrir sjúkdómnum komu upp tilfelli sem ekki áttu sér skýra smitsögu.

DEILA