Vegagerð um Teigsskóg og landslög

Landvernd hefur kært framkvæmdaleyfi fyrir vegarð um Teigsskóg í Þorskafirði. Vera kann, að einhverjir telji það að bera í bakkafullan lækinn og ekki til þess fallið að auka vinsældir að Landvernd haldi áfram baráttu gegn vegagerð í landshluta þar sem með sanngirni hefur lengi verið kallað eftir vegabótum. En ég bið lesendur að hafa í huga hver tilgangur Landverndar er og hvaða valkostir eru fyrir hendi um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Ekki má heldur gleyma að vegagerð um Teigsskóg hefur einu sinni verið stöðvuð með dómi Hæstaréttar.

Tilgangur Landverndar er að stuðla að vernd á náttúruarfi okkar. Teigsskógur er stærsta samfellda skóglendi á Vestfjörðum. Hann er óslitinn frá fjöru og upp í hlíðar og myndar einstakt samspil með leirum og grunnsævi. Báðar þessar vistgerðir, birkiskógurinn og leirurnar, njóta verndar Náttúruverndarlaga. Þá er svæðið allt verndað með sérlögum um Breiðafjörð og áhrifasvæði framkvæmdanna eru á náttúruminjaskrá. Vegurinn sem er kærður spillir þessum verðmætu og er ósamrýmanlegur framangreindum verndunarákvæðum.

Stjórn Landverndar, að höfðu samráði við lögfræðing samtakanna, telur að framkvæmdaleyfi vegna vegalagningar í Teigsskógi brjóti í bága bæði við náttúruverndarlög og skipulagslög. Þegar svo er komið ber náttúruverndarsamtökum skylda að bregðast við og leita úrskurðar.

Þessu til viðbótar telur stjórnin að ákvæði stjórnarskrár um sjálfstæði sveitarfélaga hafi ekki verið virt. Eins og fram kemur í gögnum er fylgja kæru Landverndar, virðist sem sveitarstjórn hafi verið þvinguð til að gefa út framkvæmdaleyfið. Sveitarstjórn sóttist eftir annarri lausn til bóta á samgöngum á svæðinu; lausn sem gæti haft minni neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og átt þátt í því að styrkja byggðina. Þeim valkosti var hafnað af Vegagerðinni.

Fjárhagslegir hagsmunir réðu leiðarvali Vegagerðarinnar. Hún kaus að fara ekki að niðurstöðu valkostamats en valdi þá leið sem hefur mest neikvæð umhverfisáhrif af þeim kostum sem metnir voru. Það gengur ekki upp miðað við þau lög sem gilda í landinu, að hunsa niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Mat á umhverfisáhrifum væri í raun óþarft ef eingöngu þyrfti að horfa til kostnaðar við ákvörðun um vegstæði.

Það er því óhjákvæmilegt að Landvernd krefjist stöðvunar framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis vegna form- og efnisannmarka. Okkur, sem erum í forsvari fyrir Landvernd, er ekki ljúft að kæra. Það er skyldan sem kallar.

Tryggvi Felixson,

formaður Landverndar

DEILA