Varað við hafís undan Vestfjörðum

Landhelgisgæslan varar við hafís undan Vestfjörðum. Við eftirlit varðskipsins Þórs kom áhöfnin auga á hafísinn sem var rétt utan við Halann. Ísbrúnin lá í norðaustur og klukkan 16 í gær var ísinn næst landi um 43 sjómílur norðvestur af Straumnesi.

 

Halldór Nellett, skipherra á Þór, segir ísinn vera tættan enda norðlægar áttir á svæðinu. Ísinn rekur hratt til suðsuðvesturs og sést illa á ratsjá. Varðskipið Þór fylgdi ísröndinni eftir um punktana sem sjá má hér að neðan en að auki má finna íshrafl og ísmola utan svæðisins.

 

1.67°02N-025°29V

2.67°08N-025°12V

3.66°57N-025°01V

4.66°52N-024°50V

5.66°55N-024°32V

6.66°59N-024°21V.

 

Veður og vindar voru með þeim hætti Landhelgisgæslunni þótti líklegt að hafís væri á svæðinu og gæti rekið hratt að landi. Þá var gripið til þess ráðs að leita til Ingibjargar Jónsdóttur, hafísfræðings hjá Veðurstofunni, sem brást skjótt við og veitti Landhelgisgæslunni afar góðar gervitunglamyndir sem nýttust áhöfninni á Þór vel við hafíseftirlitið.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir ísinn frá sjónarhorni áhafnarinnar á Þór auk siglingarleiðar skipsins.

DEILA