Smávirkjanir á Vestfjörðum: 18 hagkvæmir kostir

Verkís hefur unnið fyrir Vestfjarðastofu heildstæða frumúttekt á smávirkjanakostum á Vestfjörðum. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að full þörf sé á að stofna smávirkjanasjóð sem hefði það að markmiði að styðja við fyrstu skref í rannsóknum og auka möguleika á litlum virkjunum á Vestfjörðum.

Tillögur að 68 mögulegum virkjanakostum í öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum voru fundnar með kerfisbundinni yfirferð loftmynda, korta og landlíkana. Fyrir alla kostina var stærð vatnasviðs, mögulegt stíflustæði, lega vatnsvega, staðsetning stöðvarhúss og uppsett afl ákvörðuð, ásamt stofnkostnaði.

Áætluð orkuframleiðsla gerði síðan mögulegt að meta hlutfallslega hagkvæmni hvers kosts. Af þeim 68 kostum sem skoðaðir voru teljast 18 hagkvæmir og 15 mögulega hagkvæmir. Hagkvæmu kostirnir 18 eru samtals með 43 MW uppsett afl og 202 GWh.  Mögulega hagkvæmu kostirnir eru með 17 MW uppsett afl og 82 GWh framleiðslu.

Áhrif á umhverfi voru ekki metin og möguleikar á miðlunum og tengingum við flutnings- eða dreifikerfi er undanskilið í hagkvæmnimati.

Höfundar skýrslunnar eru Unnar Númi Almarsson og Þorbergur Steinn Leifsson. verkefnisstjóri var Stefán Bjarnason.

Af hagkvæmu kostunum er Norðdalsá í Steingrímsfirði vænlegust með 8,4 MW og 40 Gwh framleiðslu. Högná í Langadal í Strandabyggð er 4,7 MW og 22 GWh.

Í Ísafjarðarbæ má nefna Hvallátradalsá og Þverá í Lambadal, báðar í Dýrafirði, með 2,3 MW og 2,5 MW afl og 11 og 12 GWh framleiðslu sem vænlega kosti.

Seljaá í Kaldrananeshreppi og Lambagilsá í Hestfirði eru einnig álitlegir kostir sem vert væri að kanna nánar.

Á sunnanverðum Vestfjörðum eru margir kostir sem teljast hagkvæmir. Þar má nefna Ósá í Patreksfirði með 2,2 MW afl og 11 GWh framleiðslu.

DEILA