Lögreglan snuprar söngvara

Frá söngnum í gær við Hvíta húsið, Árborg. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Ekkert nýtt smit var greint í gær hvorki á landinu né á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum náðu þrír bata og eru nú 54 virk smit í umdæminu, öll á Ísafirði og í Bolungarvík. Alls er 83 einstaklingar í sóttkví, en 592 hafa lokið sóttkví. Samkvæmt því hafa ríflega 10% íbúa á Vestjörðum verið í sóttkví og eða einangrun.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum.

Íslensk erfðagreining hefur, með aðstoð heilbrigðisstarfsmanna í Vesturbyggð, verið að safna sýnum hjá einstaklingum sem hafa boðið sig fram til þess. Vel hefur gengið og á þeim tveimur dögum sem þetta hefur verið unnið hafa alls 400 sýni verið tekin á sunnanverðum Vestfjörðum.

Lögreglan finnur að samkomu við Árborg

Í tilkynningu lögreglunnar er vikið að söng við Árborg í Bolungavík, þar sem bakverðir og starfsmenn við hjúkrunarheimilið Berg komu saman og sungu nokkur lög fyrir vistmenn og aðra íbúa hússins í tilefni sumardagsins fyrsta.

„Lögreglunni er kunnugt um að ætlun þeirra sem fyrir athöfninni stóðu, var að hafa í heiðri fyrirmæli almannavarna og sóttvarnalæknis um að vera ekki í stærri hópum en sem nemur 5 einstaklingum og gæta að tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga.

Svo virðist sem fleira fólk hafi drifið að og tekið þátt í athöfninni og þannig hafi reglan um 5 manna hópa ekki verið til staðar lengur og jafnvel samskiptafjarlægðin heldur ekki. Ástæða er til að minna alla á að gæta þess að þessi fyrirmæli séu ekki brotin enda eru þau sett fram í þeim tilgangi að fyrirbyggja smit.“

Lögreglan var ekki á staðnum.

DEILA