Hvalárvirkjun: kærum vísað frá og hafnað

Frá Ingólfsfirði. Mynd: Kristján L. Bjarnason.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál afgreiddi á föstudaginn tvær kærur um framkvæmdaleyfi til Vesturverks ehf á viðhald Ófeigsfjarðarvegar. Var annarri kærunni frá hluta af landeigendum jarðarinnar Seljaness vísað frá  og hinni kærunni , sem var frá eigendum lóðar og íbúðarhúss í landi Eyrar í Ingólfsfirði, var hafnað.

Niðurstaðan er að óhögguð stendur sú ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps að veita Vesturverki ehf framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi á 16 km löngum kafla vegar 649 og F649 frá brekku ofan Eyrar í Ingólfsfirði að Hvalá í Ófeigsfirði.

Framkvæmdin er talin nauðsynleg svo unnt verði að koma tækjum til undirbúningsrannsókna á Ófeigsfjarðarheiði fyrir Hvalárvirkjun.

Úrskurðarnefndin ákvað að taka báðar kærurnar fyrir samtímis þar sem þær vörðuðu sama málið og að hagsmunir kærenda stóðu ekki í vegi fyrir því að svo yrði gert.

Kærunar voru báðar dagsettar í júlí 2019. Framkvæmdaleyfið var gefið út 12. júní 2019.

Áður hafði verið samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið sem er forsenda þess að unnt er að gefa út framkvæmdaleyfið.

Deiliskipulagið var líka kært og bárust einar sex kærur. Úrskurðarnefndin frestaði að taka fyrir þær kærur þar sem hinum kærðu ákvörðunum var einnig skoti til dómstóla og var ákveðið að bíða niðurstöðu þeirra. Landsréttur kvað upp þann dóm 26. mars að vísa málunum frá þar sem kærendur hefðu ekki sýnt fram á að þeir hefðu lögvarða hagsmuni. Er ljóst að þær kærur eru afgreiddar þar með fyrir úrskurðarnefndinni.

Hafa kærendur í því tilviki, hluti landeigenda Drangavíkur, nú ákveðið að höfða dómsmál til að fá viðurkennda kröfu sína til lands sem hingað til hefur verið talið í eigu jarðarinnar Engjaness.

Eftir stóðu þá fyrrgreindar tvær kærur sem úrskurðarnefndin afgreiddi á föstudaginn.

Seljanes

Fyrri kæran var frá sex af tuttugu landeigendum Seljaness. Viltu þeir ekki að vegurinn yrði lagfærður svo að gagnaðist virkjuanrframkvæmdum og vildu standa vörð um veginn sem ferðamannaveg.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að Ófeigsfjarðarvegur sé þjóðvegur og ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar. Það hlutverk breytist ekki við lagfæringar á veginum. Breytingarnar sé ekki þannig að gengið sé á grenndarhagsmuni landeigendanna. Þá telur úrskurðarnefndin að kærendur hafi ekki sannað eignarrétt sinn á vegsvæðinu. Er því hafnað að kærendur eigi hagsmuni sem teljast lögvarðir og því er kröfu þeirra vísað frá.

Eyri

Úrskurðarnefndin telur að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi framkvæmdaleyfisins og tók þá kæru til efnislegrar meðferðar. Kærendur gerðu ýmsar athugasemdir um form  svo sem um boðun og auglýsingu sveitarstjórnarfundar og það hvernig ákvörðun var bókuð. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væru slíkir annmarkar á meðferð málsins í hreppsnefnd að  ógildingu varðaði og hafnaði kröfum kærenda.

Fimm nefndarmenn kváðu upp úrskurðinn og standa allir að honum.

DEILA