Frestun Vestrabúðanna um tvo mánuði

Stjórn Körfuboltabúða Vestra hefur ákveðið að fresta 2020 búðunum um tvo mánuði. Þær áttu upphaflega að fara fram 4.-9. júní en í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 þá telur stjórn nær útilokað að búðirnar geti farið fram á tilsettum tíma. Búðirnar fara því fram dagana 6.-11. ágúst 2020 að öllu óbreyttu. Þær verða með sama sniði og síðustu ellefu ár og við vonum innilega að breyttar aðstæður komi ekki í veg fyrir að allir okkar góðu gestir, sem þegar voru búnir að skrá sig, geti tekið þátt í búðunum á þessum tíma. Stefnt er að sem minnstum breytingum á öflugum þjálfaralista sem kynntur var fyrr í vetur en hafa verður þann fyrirvara á honum, að ef takmarkanir vegna alþjóðaflugs verða enn í gildi á þessum tíma, gæti það haft áhrif á erlendu þjálfara búðanna. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, er yfirþjálfari búðanna í ár líkt og nokkur undangengin ár.

 

Það er enn hægt að skrá sig í Vestrabúðirnar, sem þykja með þeim bestu í landinu og þótt víðar væri leitað. Margir þjálfaranna, sem komið hafa vestur, telja þær vel á pari við það besta sem í boði er í Evrópu. Búðirnar í ár eru ætlaðar iðkendum sem fæddir eru 2004-2009.

DEILA