Fyrirtækið Vestfiskur á Flateyri hefur fest kaup á húsnæði Ísfells á Flateyri og fær það afhent 1. maí. Reyndar er það dótturfyrirtæki Vestfisks sem er kaupandi og heitir það ISC Seafood. Næsta skref er að fara í það að gera húsið klárt.
Húsnæðið er ætlað fyrir vinnslu Vestfisks á Flateyri á sæbjúgum og roði að sögn Gunnars Þór Gunnarssonar framkvæmdastjóra Aurora Seafood sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem standa að atvinnuuppbyggingu á Flateyri í samstarfi við Byggðastofnun.
Nýlega var keyptur báturinn Tindur ÍS sem á að veiða byggðakvótann og sæbjúgun og hafa síðustu vikur verið notaðar til þess að gera bátinn kláran á trollveiðar. Gunnar Þór segir að veiðar hefjist innan skamms, jafnvel á næstu dögum.