Fiskeldi: byggðarlögin hafa enga aðkomu að stærstu ákvörðunum

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og fulltrúi sveitarfélaganna í samráðsnefnd um fiskeldi lagði fram sérstaka bókun við afgreiðslu á áliti nefndarinnar, sem hún stóð að, þar sem hún vekur athygli á því að byggðarlögin sem  eigi mikið undir fiskeldi eigi í raun enga aðkomu að stórum ákvörðunum sem greinina varða.  Segir Sigríður í bókun sinni að það sé í mótsögn við  ákvæði laganna um fiskeldi þar sem segir að markmið laganna sé að efla atvinnulíf og byggð í landinu. Önnur ákvæði valdi því að halli á byggðarlögin og feli Hafrannsóknarstofnun of mikið vægi.

Bókunin í heild:

„Vakin er athygli á markmiðum laga um fiskeldi nr. 101/2019: „Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna”. Sú uppbygging nýrrar atvinnugreinar sem þegar er hafin gefur væntingar fyrir samfélög sem hafa verið í mikilli lægð. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa nærumhverfisins, þeirra samfélaga sem málefni varðandi uppbyggingu atvinnugreinarinnar fiskeldis varða hvað mest, að tillit sé tekið til þeirra sjónarmiða og horft heildstætt á málefni atvinnugreinarinnar. Við gerð þess sem kallað hefur verið „stefnumótun“ stjórnvalda í málefnum fiskeldis og birt var sumarið 2017 átti nærumhverfi atvinnugreinarinnar enga rödd og í raun hefur þeirri stefnumótun aldrei verið lokið.
Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um eldi á frjóum atlantshafslaxi í sjókvíum er samkvæmt laganna hljóðan bindandi fyrir ráðherra og þar með þær stofnanir sem að málum koma. Þessi tilhögun gerir að verkum að samfélög í nærumhverfi atvinnugreinarinnar hafa enga möguleika á aðkomu að stærstu ákvörðunum sem hana varða til langrar framtíðar.
Athyglisvert er að hvergi í lögum eða reglugerðum hefur verið skilgreind “ásættanleg áhætta” af uppbyggingu atvinnugreinarinnar fiskeldis og tillit raunverulega tekið til allra þátta sem máli skipta þ.e. umhverfis, efnahags og samfélags. Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar tekur í raun aðeins tillit til umhverfisþáttarins og stofnunin hefur í raun hvorki lagalegan grunn eða forsendur til að meta aðra þætti.
Sú þrönga túlkun sem fær er við gerð ráðgefandi álits samráðsnefndar um áhættumat Hafrannsóknarstofnunar gerir að verkum að vandséð er hvernig hægt verði að ná markmiðum laganna um að skapa skuli skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.“

DEILA