Fimm ný smit síðan í gær

Fimm smit hafa bæst við síðan í gær á Vestfjörðum. Þau smit voru hjá einstaklingum í Bolungarvík og Ísafirði. Smitrakning stendur yfir.

Eins og komið hefur fram hafa aðeins 6 sýni, af þeim 1713 sýnum sem Íslensk erfðagreining tók hjá einstaklingum á norðanverðum Vestfjörðum í vikunni, reynst jákvæð. Það er um 0,3%. Enn eru þó eftir að berast endanlegar niðurstöður þaðan. Þessi sýni frá Íslenskri erfðagreiningu eru inn í neðangreindum töflum segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Minnir lögreglan  á fyrirmælin um takmörkun fjölda einstaklinga í hóp, en hann miðast við 5 manns, nema ef um er að ræða fjölskyldu sem býr á sama heimili. Þetta á við um norðanverða Vestfirði, Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp. Þessi fyrirmæli ganga lengra en annars staðar á landinu og gilda til og með 26. apríl nk.

Alls hafa 93 greinst með kórónaveiruna á Vestfjörðum  og 92 eru í sóttkví.

Nítján hafa náð bata, einn hefur látist og eru samkvæmt þessum tölum eru 73 enn með virkt smit.

Á meðfylgjandi stöplariti má sjá tímadreifingu smitanna á Vestfjörðum.

 

DEILA