Um kl.22:30 í gær handtóku lögreglumenn frá Vesturlandi og Vestfjörðum þrjá aðila, tvo karlmenn og eina konu, á Vestfjaðavegi við Sælingsdal. Fólkið var á tveimur bifeiðum, sem báðum hafði verið stolið fyrr um kvöldið í Reykhólasveit. Skömmu áður en lögreglan kom á vettvang hafði ökumaður velt annarri bifreiðinni en þó ekki hlotið alvarleg meiðsl. Fólk þetta var allt flutt í fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík og munu yfirheyrslur yfir þeim fara fram síðar í dag.
Þetta kemru fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Ökumenn þessara tveggja bifreiða eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá er fólkið grunað um að hafa veist að manni sem ætlaði að koma því til aðstoðar, fyrr um kvöldið í Gufudal, en bifreið þremenninganna hafði fest þar. Fólkið er grunað um að hafa valdið manninum áverkum, auk þess að stela bifreið mannsins. Á leið fólksins fram hjá bænum Klukkufell í Reykhólasveit mun það hafa tekið aðra bifreið ófrjálsri hendi.
Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.