Áhættumat Hafró: forsendur þess ekki fyrir hendi varðandi laxastofna

Rorum ehf hefur gefið út skýrsluna Breiðdalsá og leitin að laxinum.

Höfundar eru dr Þorleifur Ágústsson og dr Þorleifur Eiríksson.

Niðurstöður skýrslunnar eru að hverfandi líkur eru á því að sjálfbærir laxastofnar geti þrifist í ám á Austurlandi. Breiðdalsá hefur skv. þeim upplýsingum sem finnast um ána aldrei verið með náttúrulegan laxastofn enda eru ekki til nein gögn sem benda til slíks. Hins vegar hafi með miklum sleppingum undanfarin ár verið haldið við hafbeitarstofni í ánni, sem hefur verið undirstaða laxveiði.

Áhættumatið gagnslaust

Þetta kollvarpar forsendu Hafrannsóknarstofnunar fyrir svonefndu áhættumati um hugsanlega erfðablöndun, sem nýlega var lögfest. Í áhættumatinu er gengið út frá því að laxastofnar séu aðlagaðir þeirri á sem þeir eru í eftir þróun frá síðustu ísöld og hafi því mikið verndargildi og gæti hlotið skaða af erfðaefni úr öðrum laxastofnum.

Breiðdalsá er hluti af þessu hættumati Hafrannsóknarstofnunar á þeim forsendum að stofninn sé bæði náttúrulegur og gamall, því mikið verndargildi. En sem fyrr segir er niðurstaða athugunar skýrsluhöfunda að ekki sé sjálfbær stofn í ánni og að lax sé tiltölulega nýlegur á svæðinu.

Ekki blanda saman ræktaðan og villtan lax

Markmið skýrslunnar er að fjalla um Breiðdalsá út frá jarð- og líffræði árinnar, skoða
uppruna og stöðu stofna laxfiska í ánni með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum sem ná allt aftur til ársins 1775. Höfundar segja það lykilatriði í umræðu um verndun villtra laxfiska að ekki sé verið að blanda inn ám sem ekki eiga sér eiginlegan stofn en hafa í stað þess verið ræktaðar.

Farið er í gegnum allar tiltækar heimildir allt frá  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og er niðurstaðan að engin dæmi um laxveiði hafi verið í Breiðdalsá fyrr en eftir 1960 og að engar vísbendingar eru um að laxastofn hafi verið í ánni.

Þá segir að „Sé málið skoða í stærra samhengi er ekki við því að búast að lax sé í Breiðdalsá, því almennt virðist lax ekki ganga fyrir austan Langanes fyrr en á 20. öld og ekki að neinu marki fyrr en talsvert eftir aldamótin 1900.“

Laxakokteill

Þorleifur Eiríksson var spurður um uppruna laxins í Breiðdalsá:

„Hvað varðar uppruna hafbeitarlaxins í Breiðdalsá er svarið ekki endilega einfalt. Það var í byrjun var sleppt seiðum úr Kollafjarðarstöðinni og sá stofn var 50% Elliðaárfiskur og 50% úr 15 ám af Vestur- og Norðurlandi. Það var hugsanlega líka sleppt laxi frá Laxalóni og ég er ekki með upplýsingar hvaðan sá stofn var kominn. Til viðbótar eru svo flökkulaxar sem enginn veit hvaðan koma. Því má svo ekki gleyma að einungis er sleppt seiðum undan völdum fiski svo laxinn er í stöðugri ræktun.“

Þorleifur var einnig spurður um hvað hann teldi um laxveiðiárnar í Ísafjarðardjúpi.

„því fljótsvarað að staðan í Djúpinu er mjög sambærileg og í Breiðdal, enda segir Þorvaldur Thoroddsen að enginn lax sé á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Langadalsá er líka með slæm skilyrði og í doktorsritgerð forstjóra Hafró sést að seiði eru stundum mörg ár í ánni, sem eykur líkur á afföllum.“

 

 

 

DEILA