Vetrarfuglatalningar á Vestfjörðum : 22 þúsund fuglar

Gulandarpar í Engidal. Mynd: Cristian Gallo

Lokið er hinni árlegu vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Eins og endranær tók Náttúrustofa Vestfjarða þátt í talningunum hér á Vestfjörðum ásamt sjálfboðaliðum sem þetta árið voru þeir Tómas Sigurgeirson, Eiríkur Kristjánsson, Jón Atli Játvarðson, Hilmar Pálsson og Matthías Lýðsson.

Talið var í Álftafirði, Dýrafirði, Önundarfirði, Skutulsfirði, Súgandafirði, Steingrímsfirði, Þorskafirði, Berufirði, Gilsfirði og á Reykhólum og í Bolungarvík. Misjafnt er hvort firðirnir eru taldir allir eða að hluta til. Niðurstöður talninga fyrir landið allt má finna á heimasíðu NÍ  https://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur .

Á þeim svæðum sem talin voru á Vestfjörðum sáust 41 tegund sem samtals töldu meira en 22 þúsund fugla. Flestir fuglanna voru í Súgandafirði, Steingrímsfirði, Skutulsfirði og á eyjum og skerjum út af Reykhólum eða yfir 2000 fuglar á hverju þessara svæða. Flestar tegundanna sem sáust eru áberandi á Íslandi yfir vetrartímann.

Af þeim tegundum sem sáust var æðarfugl algengastur en af honum voru um 10 þúsund fuglar. Stokkönd var næst í fjölda með yfir 3 þúsund fugla og svo komu snjótittlingur og hávella með um 1 þúsund fugla hvor. Mikið var af ógreindum máfum en bjartmáfur, hvítmáfur og svarbakur töldust um 500 fuglar hver. Nokkrar tegundanna eru þó tiltölulega sjaldgæfar á svæðinu og má þar nefna flórgoða, brandönd, svartþröst, gráþröst og stara. Þá kom skemmtilega á óvart að hrossagaukur, tildra, eyrugla og bleshæna voru meðal þeirra fugla sem sáust í vetrarfuglatalningunni.

Borið saman við síðasta ár voru æðarfugl og hávella með álíkan fjölda. Álft og sendling fjölgaði um helming frá fyrra ári. Talsvert fleiri lómar voru þetta árið eða  69 fuglar á móti 24 árið áður. Hlutfallslega fjölgaði tjaldi þó mest og voru þeir 126 í ár en einungis 43 síðasta ár. Störrum fjölgaði um 5 frá árinu áður og voru núna 33. Einungis sáust 10 auðnutittlingar en 37 árið áður.

DEILA