Vestfjarðastofa: mál er að linni – klárum málin

Frá borgarafundinum á Ísafirði 24. september 2017. Þar kom skýrt fram að Vestfirðingar vilja laxeldi í Djúpinu. Mynd/Haukur Már Harðarson/Bændablaðið.

Stjórn Vestfjarðastofu kom saman á þriðjudaginn og samþykkti áskorun till ríkisstjórnar og þingflokka. Er þar kvatt til þess að láta standa hendur fram úr ermum og vinna hratt að aukinni verðmætasköpun í þjóðfélaginu með uppbyggingu framleiðslu á Vestfjörðum í laxeldi og framleiðslu verðmætar vöru úr kalþörungum.

Óhætt er að segja að fyrstu viðbrögð stjórnvalda hafi verið að bestum vonum þegar Hafrannsóknarstofnun lagði til í gær, tveimur dögum síðar, að opna fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Vikið er að seinagangi í stjórnkerfinu og segir í áskoruninni:

„Mál er að linni og krafan er að unnið verði af festu og ákveðni að uppbyggingu þessara mikilvægu atvinnutækifæra, landi og þjóð til hagsbóta.“

Áskorunin í heild:

 

Áskorun til ríkisstjórnar og þingflokka frá stjórn Vestfjarðastofu

Efnahagsástand það sem hefur verið að skapast í tengslum við Covid 19 og efnahagshorfur á næstu árum, þrýstir mjög á að auka útflutningstekjur og þá ekki síst í nýjum atvinnugreinum. Á Vestfjörðum er að finna hagfelldar náttúrulegar aðstæður og auðlindir sem nýta má með sjálfbærum hætti.  Nýting þeirra er þegar hafinn með uppbyggingu í sjókvíaeldi og kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, eins er í undirbúningi kalkþörungaverksmiðja í Súðavík. Miklar tafir hafa hinsvegar orðið á uppbyggingunni sökum hægagangs í málsmeðferð og hreint út sagt ákvarðanafælni innan stjórnkerfisins og er svo enn.

Sjókvíaeldi á Íslandi
Á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur eldi laxfiska í sjó vaxið hratt á undanförnum árum og er nú meginhluti tekna af fiskeldi. En á síðasta ári námu útflutningstekjur fiskeldis 25 milljörðum króna sem var 90 % aukning frá árinu 2018. Tækifæri er nú til að auka útflutningstekjur enn frekar, ef þess sé gætt að afgreiðsla leyfisveitingar í fiskeldi sé með eðlilegum hætti. Þá skapast einnig tækifæri fyrir sveitarfélög og önnur fyrirtæki að auka fjárfestingu og fyrir stjórnvöld að setja aukinn kraft í uppbyggingu innviða.

Áhættumat erfðablöndunar og framleiðslumörk.
Framleiðsla í fiskeldi á Íslandi hefur verið afmörkuð með áhættumati erfðablöndunar og burðarþoli eldissvæða. Áhættumat erfðablöndunar gefur rými fyrir framleiðslu um 71 þús tonn sem gæfi um 71 milljarða króna í útflutningsverðmæti, en ef leyfi væru gefin miðað við  burðarþol eldissvæða gæti framleiðslan gefið um 115 milljarða, miðað við 115 þús t framleiðslu. Áhættumat erfðablöndunar hefur verið í endurskoðun hátt í þrjú ár. Nú er boðað að nýtt áhættumat verði kynnt þann 19. mars n.k..  Áhrif af niðurstöðu þessa mats geta því orðið gríðarleg fyrir hagsmuni þjóðarbúsins á þessum erfiðu tímum. Það er því augljós krafa að ríkisstjórn og Alþingi vinni strax úr niðurstöðum áhættumatsins og geri allt til að fiskeldi geti orðið ein af stærri stoðum íslensks efnahagslífs. 

Vinnsla kalkþörungs á Bíldudal og Súðavík
Ítrekaðar tafir hafa verið á umsókn stækkun vinnslu á Bíldudal frá árinu 2016 og áformum á uppbyggingu nýrrar verksmiðju í Súðavík frá árinu 2014.  Gögn málsins hafa lengi legið fyrir en málið er á höndum ríkisstofnana á borð við Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Með því að hraða málsmeðferð og koma á uppbyggingu nýrra verksmiðju, þá mun útflutningsverðmæti á næstu þrem árum, aukast úr 1 í 3 milljarða og fjölga störfum um allt að 30. Eru þá ótalin áhrif af fjárfestingu í verksmiðju, höfn og orkumannvirkjum á uppbyggingartíma.

Klárum málin!
Mál er að linni og krafan er að unnið verði af festu og ákveðni að uppbyggingu þessara mikilvægu atvinnutækifæra, landi og þjóð til hagsbóta. Stjórnkerfið hefur sýnt sig geta tekið höndum saman og náð að leiða mál hratt og vel til niðurstöðu, til dæmis í framhaldi af óveðrum í desember. Hér er um að ræða sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem háð eru ströngustu reglum og einfaldlega óskað eftir að mál verði kláruð innan stofnana ríkisins og á Alþingi.

 

Í stjórn Vestfjarðastofu eru: Hafdís Gunnarsdóttir, formaður, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Kristján Jón Guðmundsson, Kristján G. Jóakimsson, Sigurður Hreinsson, Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir og Víkingur Gunnarsson.

Auk þeirra sátu fundinn Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri og Aðalsteinn Óskarsson sviðsstjóri.

DEILA