Strandagangan 2020: metþátttaka 231 kepptu

Strandagangan var haldin í 26. sinn um helgina. Á laugardaginn fór keppnin fram í Selárdal við norðanverðan Steingrímsfjörð og í gær var svo skíðaleikjadagur fyrir yngri kynslóðina. Rósmundur Númason, Skíðafélagi Strandamanna sagði að Strandagangan hefði tekist mjög vel. Það hefðu aldrei verið fleiri þátttakendur, 231 tóku þátt í göngunni og veðrið var með ágætum, bjart og fallegt. Um 500 manns voru á göngusvæðinu að sögn Jóns Halldórssonar, sem tók myndirnar.

Keppt var í 5 km, 10 km og 20 km göngu og var lengsta gangan hluti af Íslandsgöngunni. Gengin var 10 km hringur fram í Selárdalinn fram að Gilsstöðum. Keppendur komu frá mörgum félögum auk Skíðafélags Strandamanna svo sem Skíðafélagi Ísafjarðar, Ulli, Mímósu, FÍ Landvættum 2020, Völsungi, Fjölni, Skíðafélagi Akureyrar, UMFÁ, Akranesi, Konalko, Stikaferill, team Stella, Snæfelli, Breiðablik, Skíðafélag Ólafsfjarðar og að ógleymdi Team trölli frá Tröllatungu. Eru þó ekki öll lið upptalin.

Í Íslandsgöngunni karla varð Arnar Ólafsson, SKA fyrstur. Einar Ólafsson, Ulli varð annar og Sveinbjörn Orri Heimisson, SFÍ þriðji. Gígja Þórðardóttir varð fyrst kvenna, Edda Vésteinsdóttir önnur og Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Breiðablik þriðja.

Í 10 km göngunni varð Ólafur Thorlacius Árnason, Ulli  fyrstur karla og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, SFÍ  fljótust kvenna.

Þorri Ingólfsson, Ulli  varð fyrstur karla í 5 km göngunni og Birna Dröfn Vignisdóttir, Skíðafélagi Strandamanna fyrst kvenna.

 

DEILA