Reykhólar: svara kæru Landverndar

Sveitarstjórnarmenn á Reykhólum.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur verið kölluð saman til fundar á morgun, þir’judaginn 31. mars 2020. Fyrsti liður á dagskrá er kæra Landverndar.

Landvernd kærði fyrir réttri viku til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðaveg á milli Bjarkalundar og Skálaness, svokölluð leið Þ-H.

Í kærunni er þess fyrst krafist að framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta er til meðferðar hjá nefndinni.
En aðalkrafan er tvíþætt. Annars vegar að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 25. febrúar 2020 um að veita framkvæmdaleyfi og hins vegar að  framkvæmdaleyfið verði felld úr gildi.

Krafan um ógildinu er rökstudd þannig í kærunni að „hin kærða ákvörðun og framkvæmaleyfið og öll afgreiðsla málsins sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum sem leiða til þess að samþykkt þess af hálfu sveitarstjórnar Reykhólahrepps sé ógild eða ógildanleg.“

Ólögmætar þvinganir Vegagerðarinnar

Meðal þess, sem að mati Landverndar, styður kæruna er að það :

„var verulegur galli á ákvörðunarferli málsins þar sem ákvörðunin um hvaða leið skyldi farin var í reynd tekin af Vegagerðinni sem beitti ólögmætum þvingunum gegn Reykhólahrepp til að ná sínu í gegn á sveitarstjórnarstigi. Þvinganirnar fólust í því að neita alfarið að leggja veginn um aðra leið en um Teigsskóg nema að Reykhólahreppur greiddi þann kostnað sem nemur mismuninum á þeirri leið og annarri leið sem yrði fyrirvalinu. Reykhólahreppur er lítið sveitarfélag og öllum ljóst að það gæti ekki staðið undir slíkum kostnaði.“

Til rökstuðnings kröfu Landverndar er vísað í bókanir sveitarstjórnarmanna sem þeir lögðu fram við afgreiðslu leiðavalsins þann  22. janúar 2019 þar sem þeir lýsa því að um þvingað leiðaval sé að ræða.

Í bókun sem lögð var fram af hálfu Árnýjar Huldar Haraldsdóttur segir:

„Nú þegar komið er að því að velja hvar Vestfjarðavegur (60) skuli lagður um Reykhólahrepp, frá Bjarkalundi að Skálanesi, tel ég mig ekki hafa raunverulegt vald um hvaða leið verður farin. Raunverulegt skipulagsvald hefur Vegagerð Ríkisins tekið af sveitarstjórn Reykhólahrepps.“

Árný  greiddi atkvæði með Þ-H leiðinni og í niðurlagi bókunar sinnar segir hún:

„Ég vil benda á alvarleika þess að skipulagsvaldið sé tekið af sveitarfélögum. Legg ég til að skoðað verði með lögfræðingum sveitarfélagsins hvort lögð verði fram stjórnsýslukæra þess efnis á hendur Vegagerðinni.“

Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir, sem einnig greiddu atkvæði með Þ-H leið bókuðu:

„Sveitarfélaginu hafa verið settar fjárhagslegar skorður við leiðarval í þessu ferli og lítum svo á að það hafi ekki raunverulegt val um leið, heldur sé það að samþykkja leið sem stjórnvöld leggja til. Þar með setjum við spurningarmerki við hvort skipulagsvald liggi í raun og veru hjá sveitarfélögunum.“

Tökum til varna

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að sveitarstjórnin væri kærð og að hún myndi nú taka til varna gagnvart úrskurðarnefndinni og færa sín rök fyrir ákvörðuninni um Þ-H leiðinni. Á sveitarstjórnarfundinum á morgun yrðu svör sveitarstjórnarinnar ákveðin.

 

DEILA