Lög um neyðarstjórnun sveitarfélaga

Alþingi hefur samþykkt tímabundnar veigamiklar breytingar á sveitarstjórnarlögum  sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Gildir nýja ákvæðið til loka árs 2020 þó þannig að ákvarðanir sem teknar eru fyrir lok ársins geta gilt í allt að fjóra mánuði.

Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Þetta er gert til að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur nú birt með auglýsingu útfærslu á ofangrindu heimildarákvæði.

Fjarfundir – breytt valdsvið nefnda – samþykkt mála og fundargerða

Til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir:

1. Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.

2. Að ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins með fjarfundarbúnaði.

3. Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykktum sveitarfélagsins.

4. Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé um annað í samþykktum sveitarfélagsins.

5. Að ákveða að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, nr. 22/2013.

Ísafjarðarbær nýtir heimildina

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að  á meðan neyðarástand ríkir vegna COVID-19 verði nefndum, ráðum og bæjarstjórn heimilt að funda samkvæmt breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga.

 

DEILA