Laxinn er ný tegund í Djúpinu

Langadalsá. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Mikil áhersla er lögð á að vernda lífríkið fyrir ágangi mannsins, sem hefur frá dögum iðnbyltingarinnar fyrir um 250 árum breytt náttúrunni í samræmi við sínar þarfir, bæði landslagi og dýralífi. Verndunarsjónarmiðin eru tiltölulega nýleg og alþjóðleg sjónarmið sem njóta almenns stuðnings. Eitt afsprengi þess er t.d. löggjöf um umhverfismat, sem vel að merkja kemur til landsins frá Evrópusambandinu.  Þá er leitast við að haga framkvæmdum, svo sem við vegagerð og  virkjanir þannig að umhverfið eða náttúran spillist sem minnst.

Þessi sömu sjónarmið ná til dýraríkisins og þar er skyldan að haga nýtingu þess á þann veg að vernda dýrategundirnar gegn útrýmingu. Það er einkum með þessi rök að vopni sem gengið hefur verið út frá  því að vernda beri laxastofna í ám í Ísafjarðardjúpi. Heimurinn verði sem sé fátækari ef stofn eyðileggst og hverfur.

Þegar þessum rökum er beitt þarf engu að síður að færa rök fyrir því að viðkomandi stofnar séu einstakir og síðan að útrýmingarhætta stafi að þeim vegna athafna mannsins, sem í þessu tilviki væri laxeldi í sjó.

Hér er ætlunin að athuga fyrri spurninguna. Eru laxastofnarnir í ánum þremur í Djúpinu einstakir eða hluti af stofnum eru einnig annars staðar á landinu?

Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur á Tálknafirði hefur um langt árabil starfað sem ráðgjafi við laxeldi víða um landið.  Hann segist ekki vera í neinum vafa um að laxinn í Ísafjarðardjúpinu er tiltölulega nýkominn þangað. Með öðrum orðum þá er ekki um að ræða gamla stofna sem hafa gengið í Djúpið um hundruð eða þúsundir ára. Jón Örn bendir á að á tímum litlu ísaldarinnar á 18. öld hafi  hafís löngum verið í Djúpinu og það sé óhugsandi að lax hafi þrifist í ánum á þessum tíma.  Hann bendir á að í dag sé Djúpið á ystu mörkum útbreiðslusvæðis laxins og að svæðið sé gríðarlega harðbýlt fyrir laxinn.

Þetta mat Jóns Arnar Pálsson fær stuðning í nýjustu skýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá 2019 um vöktun á  stofnum laxfiska í Langadalsá við Ísafjarðardjúp árið 2018. Höfundur er Sigurður Már Einarsson. Þar stendur:

„Langadalsá er staðsett á jaðarsvæði útbreiðslumarka Atlantshafslaxins þar sem sveiflur í umhverfi eru meiri en sunnar á útbreiðslusvæðinu og stofninn lendir þannig undir enn meira álagi vegna erfiðra umhverfisskilyrða.“

Sex heimildir um enga laxagengd frá 1710 – 1949

Á bb.is birtist 29.5. 2018 athglisverð grein eftir Halldór Jónsson frá Ísafirði sem heitir leitin að landnámslaxinum. Halldór athugaði einmitt tiltækar heimildir um laxagengd í Djúpinu á fyrri tímum. https://www.bb.is/2018/05/leitin-ad-landnamslaxinum/

Um Laugardalsá eru eðlilega engar heimildir um laxagengd enda var áin ekki laxgeng  fyrr en eftir miðja síðustu öld þegar sprengdur var laxastigi í ána. Svo það var ekkert sem þurfti að athuga.

Fyrst ber Halldór niður í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1710. Þar er ekki minnst á laxveiði í Langadalsá heldur aðeins silungsveiði.

Næst eru það Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem fóru rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1752-1757 og skildu eftir sig handrit að ferðabók er síðar var gefin út. Í henni kemur fram að hvergi veiðist lax í ám á Vestfjörðum.

Þriðja heimildin sem Halldór Jónsson athugar er Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen sem gefin var út árið 1881. Þar skrifar Þorvaldur: „Laxinn (Salmo salar) gengur upp í mjög margar ár bæði sunnan lands og norðan, en miklir hlutar landsins eru þó laxlausir, t.d. Vestfirðir allir milli Gilsfjarðar og Bitru,“

Í fjórða lagi athugaði Halldór Sóknarlýsingar Vestfjarða  sem ritaðar voru á árunum 1839-1854 að tillögu Jónasar skálds Hallgrímssonar. „Þar er nokkuð nákvæm lýsing á hlunnindum jarða í hverri sókn í Ísafjarðardjúpi. Er þar nokkrum sinnum nefnd silungsveiði en aldrei er laxveiði nefnd á nafn.“ segir í grein Halldórs.

Í fimmta lagi athugar Halldór  bók Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings Fiskarnir, sem kom út árið 1926. Í bókinni  rekur Bjarni nokkuð nákvæmlega hvar lax veiðist á Íslandi. Er kemur að Vestfjörðum í hans upptalningu stendur: „en á öllu svæðinu þaðan kringum Vestfjarðakjálkann, að Hrútafirði, verður varla vart við lax, eða menn greina hann þar tæplega frá sjóurriða.“

Loks nefnir Halldór Jónsson að Jóhann Hjaltason skólastjóri skrifaði lýsingu á Norður-Ísafjarðarsýslu í árbók Ferðafélags Íslands árið 1949. Um Laugardalsá skrifar Jóhann: „Áin er því lygn með miklum botngróðri og veiðisælt silungsvatn, en lax hefur þar eigi verið svo menn viti, fremur en í öðrum ám Vestfjarða, fram til síðustu ára, að laxaseiði hafa verið látin í ána til uppvaxtar. “ Svo mörg voru þau orð. Engum orðum fer hann frekar um laxveiði í Ísafjarðardjúpi skrifar Halldór að lokum.

 

Eftir þennan lestur er eðlilega spurt: hvert er verndargildi laxastofnanna í Djúpinu sem eru til þess að gera ný tegund í viskerfinu í Ísafjarðardjúpi.  Augljóst er að þeir hafa tekið sér bólfestu í ánum fyrir tiltölulega fáum áratugum og eru komnir annars staðar frá. Þeir eru því ekki einstakir og verndargildi þeirra því takmarkað. Líffræðilegt verndargildi er varla fyrir hendi. Þetta breytir verulega öllu mati.

Þegar meta þarf áhrif laxeldis í sjó á laxastofnana sem ganga í umræddar þrjár ár, Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá verður því einungis meta hugsalegan efnahagslegan skaða veiðiréttarhafa og vega hann á móti efnahagslegum ávinningi af laxeldinu.

Efnahagslegur stærðirnar eru nokkuð þekktar. Útflutningstekjur af 30 þúsund tonna eldi í Djúpinu eru um 30 milljarðar króna á ári. Af nýtingu ánna fyrir stangveiði fást um 25 – 30 milljónir króna á ári. Hlutföllin eru 1000:1 eldinu í vil.

-k

 

 

 

 

 

 

DEILA