karfan: Fimmti sigurinn í röð hjá Vestra

Frá leiknum í gærkvöldi. Mynd: Vestri.is

Vestri lagði Skallagrím úr Borgarnesi að velli í gærkvöldi í hröðum og skemmtilegum leik á Ísafirði 99-80. Leikurinn var fimmti sigurleikur Vestra í röð og tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppninni með honum. Þetta var frestaður leikur sem átti upphaflega að fara fram þann 20. desember síðastliðinn og gat Vestri því ekki telft fram bakverðinum Toni Jelenkovic sem þá var ekki genginn til liðs við Vestra.

Vestri hafði frumkvæðið megnið af leiknum og leiddi en Borgnesingar slepptu þeim aldrei langt undan og náðu að jafna í 57-57 um miðbik þriðja leikhluta. Lengra komust Skallagrímsmenn þó ekki og Vestri tók aftur af skarið og endaði leikurinn með 19 stiga sigri 99-80.

Það er stutt á milli leikja þessa dagana og feru aðeins tveir dagar í tvo  heimaleiki í röð gegn Sindra frá Hornafirði. Leikirnir tveir gegn Sindra fara fram föstudaginn 6. mars kl. 19:15 og laugardaginn 7. mars kl. 15:00.

Nebojsa Knezevic var besti maður vallarins í gær með með glæsilega tvöfalda tvennu 35 stig og 11 stoðsendingar auk þess að taka 4 fráköst og stela 2 boltum. Nemanja Knezevic var drjúgur að vanda og hlóð í sína kalssísku tvöföldu tvennu, 19 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar.

Atkvæðamestur hjá Skallagrími var Kristján Örn Ómarsson með 20 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Marínó Pálmason var með 15 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar og Kenneth Mitchell Simms var með 12 stig, 17 fráköst og 3 stoðsendingar.

Vestri er í 4. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 18 leiki og á 2 – 3 leiki til góða á liðin fyrir ofan Vestra.

DEILA