Jakob Valgeir: er ekki að deyja úr bjartsýni

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf í Bolungavík segir mikla óvissu vera uppi næstu vikurnar í sjávarútveginu. „Ég er ekki að deyja úr bjartsýni“ segir hann. “ Við höfu verið að selja afurðir okkar til Spánar og Ítalíu og selja þar á veitingastaði. Nú er sá markaður lokaður.“  Jaokb Valgeir segir þetta töluvert högg. En á móti kemur að búðirnar eru opnar og þar er mikil eftirspurn. Fiskur er matvara og eftirspurnin hverfur ekki svo létt til lengri tíma litið.

Fyrstu viðbrögð hér heima er að verðið á fiskmörkunum hafi lækkað enda aflast vel og mikið magn kemur til sölu á sama tíma og eftirspurnin fellur.

Jakob Valgeir segist gera ráð fyrir að geta framleitt klárlega  næsta mánuðinn og líklega annan til, en mögulega muni verðin lækka. Hann segir að fyrirtækið búi að því að Iceland Seafood, sem selur afurðirnar, hafi gott sölukerfi. Lengra er ekki hægt að sjá fram í tímann með góðu móti.

Vinnuaflið er sérstakur óvissuþáttur fyrir vinnsluna. „Meðan fólkið kemur til vinnu höldum við áfram. En við vitum ekki hvað gerist ef veirusmit kemur upp meðal starfsmanna. Getum við þá haldið áfram?“

Starfsmennirnir eru hitamældir á hverjum degi að sögn Jakobs Valgeirs og allt gert til þess að fylgjast eins vel með og hægt er.

Jakob Valgeir nefndi tvo þætti sem hann sá sem jákvæða í stöðunni. Annar er staða efnahagsmála. „Við höfum aldrei verið eins vel tilbúinn í sögu lýðveldisins til þess að takast á við svona efnahagsáfall“ segir Jakob Valgeir og hitt er að fiskur og fiskafurðir eru matvara og eftirspurn eftir henni mun til lengri tíma dragast minna saman en búast má við almennt varðandi eftirspurn.

DEILA