Gufudalssveit: ekkert sem ætti að hindra verkefnið

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að vegagerðin í Gufdalssveit sé á framkvæmdaáætlun í Samgönguáætlun Alþingis 2020-2024 og sé auk þess fjármagnað í fjárlögum og ríkisfjármálaáætlun.  „Þannig er ekkert sem ætti að hindra verkefnið á þessu stigi af hálfu stjórnvalda“ segir Sigríður.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur ákveðið að milli Bjarkalundar og Skálaness að farin verði svonefnd Þ-H leið og hefur gefið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Landvernd hefur nú kært það til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og fer fram á að leyfið verði fellt úr gildi og einnig að framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta er til meðferðar hjá nefndinni.

Sigríður Kristjánsdóttir  segir að þetta verkefni hafi verið á lista Fjórðungssambands Vestfirðinga  til margra ára – „í raun allt frá 1997 í fyrstu samgönguáætlun þess þar sem tilgreind voru þrjú mál sem sett voru á oddinn, tengingar innan atvinnusvæða á Vestfjörðum, tengingar atvinnusvæða og tengingar út af svæðinu og verkefnið kemur inn í alla þessa flokka hefur því verið eitt af forgangsmálum vestfirskra sveitarfélaga. Þessi ríkisstjórn sem nú situr og sú síðasta hafa verið einhuga um þetta mál.“

 

 

 

 

DEILA