Fossavatnsgöngunni er aflýst

Myndir frá Fossavatnsgöngunni 2018. Aðsendar.

Stærsta skíðamóti landsins, Fossavatnsgöngunni hefur verið  aflýst.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá undirbúningsnefnd. Þar segir:

„Eins og kunnugt er liggur nú allt íþróttastarf í landinu niðri og bann hefur verið sett við samkomum með fleiri en 20 manns. Miðað við núverandi áætlanir rennur bannið vissulega úr gildi skömmu fyrir áætlaðan keppnisdag í Fossavatnsgönguni, 18. apríl,  en að áliti stjórnar göngunnar er ekki verjandi að halda mótið við þessar aðstæður. Fossavatnsgöngunni 2020 hefur því verið aflýst.  Öll undirbúningsvinna vegna Fossavatnsgöngunnar hefur nú verið lögð til hliðar í bili og og í staðinn verður hafist handa við að finna leiðir til að milda þann fjárhagslega skaða sem skíðafélagið okkar verður óhjákvæmilega fyrir sökum þess að gangan fer ekki fram.

Uppselt var í Fossavatnsgönguna eins og síðustu ár en 1300 keppendur voru skráðir til leiks frá 25 löndum. Nú þegar hefur verið lagt í gríðarlega mikla undirbúningsvinnu og mikinn kostnað vegna göngunnar í ár. Snjóalög eru betri en marga undanfarna vetur og aðstæður allar hinar bestu, þannig að það er afar sárt að þurfa að aflýsa mótinu. Verst er höggið þó fyrir Skíðafélag Ísfirðinga því Fossavatnsgangan er mikilvægasta tekjulind félagsins og í raun lykillinn að því að hægt sé að halda úti því öfluga barna- og unglingastarfi sem Ísfirðingar eru þekktir fyrir.“

„Við vonum að öllum, sem ætluðu að leggja leið sína til Ísafjarðar til að taka þátt í göngunni, vegni vel og sleppi við veikindi og aðra þá erfiðleika sem covid-19 veldur í samfélaginu okkar. Við treystum því að þetta gangi yfir áður en langt um líður og að við munum öll hittast í Fossavatnsgöngunni 2021“ segir Heimir Hansson talsmaður göngunnar.

DEILA