Drangsnes: Viktoría ráðin skrifstofustjóri

Viktoría Rán Ólafsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri Kaldrananeshrepps og hefur hún þegar hafið störf. Hún tekur við starfinu af Jenný Jensdóttur, sem sagði starfi sínu lausu í byrjun árs hjá sveitarfélaginu eftir 34 ára starf. Jenný starfar áfram fyrst um sinn.

Í tilkynningu frá Kaldrananeshreppi segir að sveitarstjórn sé sönn ánægja að bjóða Viktoríu velkomna til starfa og þakkar Jenný fyrir vel unnin störf fyrir sveitarfélagið og óskar henni velfarnaðar. Framundan eru fjölbreytt verkefni hjá sveitarfélaginu em sér fram á  öflugt starf þrátt fyrir erfitt ástand í landinu segir í tilkynningunni.

Viktoría Rán Ólafsdóttir var áður kaupfélagsstjóri Kaupfélags Strandamanna Hólmavík, KSH. Á síðustu mánuðum hefur orðið veruleg breyting á rekstri Kaupfélagsins og Samkaup yfirtók verslunarrekstur félagsins. Ákveðið var að ráða ekki kaupfélagsstjóra að sinni a.m.k.

Meðal breytinga hjá KSH er að hætt var rekstri verslunar kaupfélagsins á Drangsnes. Kaldrananeshreppur keypti húsnæðið af Kaupfélaginu á Borgargötu 2 fyrir 8,7 milljónir króna og stofnað hefur verið félag um verslunarrekstur í húsnæðinu.

 

DEILA