Alþingi: vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd: guide.Is

Sextán alþingismenn úr 5 flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki. Einnig eru flutningsmenn frá Framsóknarflokki, Miðflokki, Flokki fólksins og Vinstri grænum.  Fimm þingmenn Norðvesturkjördæmis standa að tillögunni. Það eru þau Haraldur Benediktsson, Sigurður Páll Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja rafney Magnúsdóttir og Bergþór Ólason.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
▢ Já.
▢ Nei.“

Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar fjórum sinnum áður, án þess að hljóta afgreiðslu. Í greinargerð kemur fram að flutnningsmenn telja mikilvægt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Áréttað er „að Reykjavíkurflugvöllur gegnir fjölþættu hlutverki í samgöngum landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Völlurinn er óumdeilanlega miðstöð innanlandsflugs og gegnir í því sambandi lykilhlutverki. Um flugvöllinn fara að jafnaði um 400 þúsund farþegar á ári og hefur þeim farið fjölgandi. Tilgangur hluta ferðanna er að sækja brýna læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í sjúkra- og neyðarflugi og tengist þannig brýnum öryggishagsmunum almennings, en hann er óumdeilanlega ein helsta tenging landsbyggðarinnar utan suðvesturhornsins við Landspítala.“

Þá segir að síðast þegar málið var flutt hafi  borist 21 umsögn um það og að yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga sem sendu inn umsögn studdu efni tillögunnar um að landsmenn allir fengju að hafa skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Aðeins Reykjavíkurborg var því mótfallin.“

 

 

DEILA