20% atvinnuleysi á Flateyri

Frá Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í skýrslu starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri í kjölfar snjóflóðanna að ríflega 20% atvinnuleysi sé á Flateyri.

Vinnumálastofnun áætlaði að þann 1. desember sl. væru 2.148 manns á vinnumarkaði í
Ísafjarðarbæ. Út frá því er áætlað að það séu ríflega 100 manns á vinnumarkaði á Flateyri.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru 26 atvinnulausir á Flateyri í lok
janúarmánaðar sem þýðir yfir 20% atvinnuleysi á staðnum.

Þar af eru 15 sem komu úr útgerð eða fiskvinnslu, þar af sex sjómenn sem komu inn á skrá eftir flóðin. Þegar horft er til menntunar voru 17 af þeim sem voru án vinnu með grunnskólapróf eða sambærilegt en 7 iðnnám, stúdentspróf eða annað framhaldsskólanám. Flestir eða 17 höfðu verið á atvinnuleysisskrá í 6 mánuði eða minna og 7 í 6-12 mánuði.

Illa laskað atvinnulíf

Í skýrslunni segir að staðan í atvinnumálum á Flateyri sé alvarleg. Snjóflóðin þann 14. janúar sl. hafi breytt með afgerandi hætti forsendum búsetuöryggis og atvinnulífs.

„Nær öll útgerðarstarfsemi lagðist samstundis af á Flateyri vegna þeirrar eyðileggingar sem
varð í flóðinu. Atvinnulíf á Flateyri er af þeim sökum illa laskað en fyrir flóðin var staðan þegar orðin alvarleg í kjölfar gjaldþrots stærstu fiskvinnslu staðarins haustið 2019.“

Staða útgerðarfyrirtækja á Flateyri sem hafa vilja til að reyna aftur að hefja útgerð frá Flateyri er misjöfn og fyrirtækin búa við töluverða óvissu um framhaldið. Afgreiðslu tryggingamála bátanna er ólokið og fjárhagstaða fyrirtækjanna óljós eins og sakir standa. Þá kemur fram í skýrslunni að skýrt hafi komið fram af hálfu þeirra sem urðu fyrir tjóni að ófýsilegt sé að hefja útgerð á ný ef hafnarsvæðið verður ekki varið sérstaklega fyrir snjóflóðum.

37% fækkun á Flateyri

Íbúum á Flateyri hefur fækkað um 117 eða 37% á síðustu 20 árum, frá 1. janúar 1999 til 1. janúar 2019. Íbúar voru 318 þann 1. janúar 1999 en 201 þann 1. janúar 2019. Á sama tíma fækkaði íbúum í dreifbýlinu í Önundarfirði úr 73 í 60 eða um 18%.

DEILA