Vilja stuðla að nýrri starfsemi til sveita

Heyskapur í Landsveit. Mynd: Hugi Ólafsson.

Íslenskir bændur eru almennt jákvæðir í garð náttúruverndar og sjá fyrir sér að hægt sé að vinna að náttúruvernd samhliða landbúnaði. Þeir vilja leggja alúð við umhverfið til þess að viðhalda náttúrugæðum á bújörðum sínum og eru áhugasamir um að taka þátt í slíkum verkefnum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Í skýrslunni kemur fram að LOGN er náttúru- og landbúnaðarnýsköpun og getur hún gegnt lykilhlutverki við innleiðingu verkefna sem stuðla að nýrri starfsemi til sveita. „Hugsa þarf leiðir til að umbuna bændum t.d. með styrkjakerfi líkt og tíðkast víða erlendis. Einnig gæti ávinningur bænda komið til með aðstoð við markaðssetningu eða auðkenningu afurða, en jafnframt gætu bændur tekið að sér ýmis konar skráningar og eftirlit með náttúruauðlindum.“

Þegar til lengri tíma er litið getur verkefnið haft jákvæð félags- og hagfræðileg áhrif og aukið lífsgæði íbúa bæði í nærumhverfi sem og landinu í heild. Áhrif þess geta einnig virkað sem mótvægisaðgerð í loftslagsmálum og skapað jákvæða ímynd fyrir landbúnaðinn

Í skýrslunni eru auk viðhorfskönnunarinnar greining á samlegðaráhrifum landbúnaðar og náttúruverndar og umfjöllun um hvernig unnið er að samþættingu þessara þátta erlendis.

„Það felast mikil tækifæri í því að bændur nýti sér samlegðaráhrif landbúnaðar og náttúruverndar til að stunda umhverfisvænan, en jafnframt ábatasaman, landbúnað á jörðum sínum. Aukin þátttaka bænda í náttúruverndarverkefnum styður við jákvæða byggðaþróun og er líka mikilvægur þáttur í því að styðja við ímynd íslenskra landbúnaðarafurða og landbúnaðarins í heild,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

DEILA