Vesturbyggð: fiskeldið gaf 2019 nærri helming tekna hafnarsjóðs

Patrekshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tekjur hafnarsjóðs Vesturbyggðar á síðasta ári af eldisfiski voru 75,6 milljónir króna og eru þá talin hafnagjöld vegna vinnubáta, vörugjöld vegna fóðurs og afurða, auk aflagjalds.

Þetta kemur fram í svörum frá Vesturbyggð við fyrirspurn Bæjarins besta. Í fjárhagsáætlun fyrir 2019 var gert ráð fyrir að að tekjur yrðu 156 milljónir króna. Eru því tekjur af eldisfiskinum rúmlega  48% af tekjunum.

Á árinu 2017 var hlutfallið 31%. þá voru tekjur af eldisfiskinum 52,5 milljónir króna og heildartekjur hafnarsjóðs urðu 167  milljónir króna. Á árinu 2018 lækkuðu tekjur hafnarsjóðs af eldisfiskinum niður í 38,5 milljónir króna sem var þó 29% af tekjum ársins.

Hagnaður varð af rekstri hafnarsjóðs öll árin. Árið 2017 varð 34 milljón króna hagnaður, 15 milljónir króna árið eftir og gert var ráð fyrir 46 milljón króna hagaði í fjárhagsáætlun 2019.

Fyrir yfirstandandi á eru horfurnar góðar eftir því sme fram kemur í greinargerð með fjárhagsáætlun 2020 en þar segir:

„Heildartekjur hafnarsjóðs hækka umtalsvert á milli ára og eru áætlaðar 199 milljón króna en gjöld eru áætluð 150 milljón króna. Rekstur hafnarsjóðs er því áætlaður jákvæður upp á 48 milljónir króna á árinu 2020. Betri afkomu hafnarsjóðs má rekja til aukinna umsvifa í fiskeldi, aukningu á komu skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar og strandsiglinga Samskipa til Bíldudalshafnar og þá hefur fjölgað nokkuð þeim sem stunda strandveiðar á sumrin og landa í Patrekshöfn.“

DEILA