The Icelandic Wildlife Fund hefur ekki skilað ársreikningi

Framkvæmdastjóri The Icelandic Wildlife Fund landar góðum laxi. Mynd: Viðskiptablaðið.

Sjálfseignarstofnunin The Icelandic Wildlife Fund ( IWF) í Reykjavík hefur ekki skilað inn ársreikningi til Ríkisendurskoðunar eins og lög kveða á um. Skipulagsskrá var skilað inn til Ríkisendurskoðunar í apríl 2017 og segir í svari frá Ríkisendurskoðun að stofnunin skuli halda skrá yfir heildartekjur og gjöld, svo og eignir og skuldir allra skráðra sjóða og stofnana og er The Icelandic Wildlife Fund þar á meðal samkvæmt svarinu.

„Hvað varðar the Icelandic Wildlife Fund þá var sjóður skráður á sjóðaskrá á árinu 2017 og átti því að skila fyrsta ársreikningi 2018 vegna ársins 2017. Eins og fram kemur á bls. 41 í skýrslu okkar fyrir skil á ársreikningum 2018 hefur aldrei verið staðið skil á ársreikningi fyrir umræddan aðila.“ segir í svari frá Ríkisendurskoðun.

Patagonia styrkir IWF

Jón Kaldal er skráður ritstjóri vefsíðu IWF og ábyrgðamaður og var auk þess skráður framkvæmdastjóri frá nóvember 2018 til september 2019. Hann var beðinn um ársreikning en svaraði því til „að allar upplýsingar um sjóðinn eru aðgengilegar hjá þeim stofnunin sem þjónusta almenning um slíkar beiðnir.“

Er hann var inntur eftir tekjum sjóðsins svaraði hann:

„Það hefur komið fram oftar en einu sinni að IWF er fjármagnað með frjálsum framlögum sem koma frá fjölda einstaklinga og fyrirtækja, að miklum meirihluta innanlands.

Við það má bæta að Patagonia studdi sjóðinn um 12 þúsund dollara í fyrra og var það hæsti erlendi styrkurinn sem við höfum fengið.“

Patagonia er bandarískt fyrirtæki sem selur m.a. sjávarvörur  og útivistarfatnað og sérhæfir sig í fatnaði og útbúnaði fyrir stangveiðimenn. Það hefur beitt sér gegn laxeldi á Atlandshafslaxi í sjókvíum í Evrópu og stóð í fyrra fyrir almennri undirskriftasöfnun gegn laxeldinu. Meðal vörutegunda sem Patagonia selur er afurðir gerðar úr Kyrrahafslax frá Alaska sem veiddur er í net.

IWF gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Athygli hefur vakið að frá áramótum hafa birst nokkrar hvassar greinar gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi og almennt á Vestfjörðum auk þess sem Arnarlax ehf hefur verið í skotlínunni. Þeir sem skrifa eru flestir tengdir IWF. Ingólfur Ásgeirsson, flugstjóri er annar stofnandi sjóðsins og núverandi framkvæmdastjóri. Freyr Frostason er stjórnarformaður og Haraldur Eiríksson er stjórnarmaður. Sá fjórði er Jón Kaldal fyrrverandi framkvæmdastjóri og ritstjóri og umsjónarmaður vefsíðu IWF.

Í skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina The Icelandic Wildlife Fund segir að markmið hennar sé að standa vörð um villta laxastofninn, sjóbleikju, sjóbirting og aðra ferskvatnsfiska. Stofnfé er 1.155.000 kr og greiðist af stofnendunum Ingólfir Ásgeirssyni og Lilju R. Einarsdóttur.

Umræða um laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefur verið lengi uppi og nú er beðið eftir afstöðu Hafrannsóknarstofnunar til þess hvort hefja megi laxeldið, en burðarþolsmat liggur fyrir og samkvæmt því ber svæðið í Ísafjarðardjúpi fyrir utan Jökulfirði, sem ekki hefur verið metið, 30.000 tonna framleiðslu á ári. Útflutningsverðmæti þess er um 30 milljarðar króna og framleiðslan myndi skapa hundruð starfa við Djúpi. Á móti kemur að þrjár laxveiðiár eru í Ísafjarðardjúpinu og stangveiðimenn leggjast gegn laxeldinu, þar sem þeir óttast að eldislaxinn blandist við stofnana í ánum. Stofnarnir eru litlir og veiðin er lítil og talin í fáum hundruðum laxa. Tekjur af veiðinni hafa ekki verið gefnar upp, en samkvæmt þeim upplýsingum sem Bæjarins besta hefur, eru þær um 20 – 30 milljónir króna á ári og ekkert starf er skráð vegna stangveiðarinnar.

Skrifin undanfarnar vikur eru frá IWF mönnunum því settar í samhengi  við væntanlega ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar og stjórnvalda um laxeldi í Djúpinu.

Stórtækur leigutaki í laxveiðiám

Við athugun kemur í ljós að Ingólfur Ásgeirsson er umsvifamikill leigutaki laxveiðiáa og stórtækur í sölu veiðileyfa.  Hann hefur ásamt öðrum frá 2013 haft á leigu árnar Kjarrá og Þverá í Borgarfirði og greiddu þeir 560 milljónir króna fyrir 5 ára samning auk annars kostnaðar sem Viðskiptablaðið mat á 100 milljonir króna. Samkvæmt frásögn Viðskiptablaðsins var tilboð þeirra 35-45% hærra en fyrri leigusamningur.

Þá hefur sama fyrirtæki á leigu svæði við Hvítá og kemur að leigu á Víðidalsá og Laxá í Aðaldal svo ljóst er að um er að ræða umsvifamikla og fjárfreka atvinnustarfsemi sem ætla má að velti hundruðum milljóna króna á ári. Gera þeir einkum út á sölu dýrra veiðileyfa til útlendinga.

Á bak við sjálfseignarstofnunina The Icelandic Wildlife Fund leynast þegar að er gáð  fjárhagslegir hagsmunir athafnamanna sem leitast við  að hagnast á sölu stangveiðileyfa. Það eru peningar sem greinilega eru drifkrafturinn í málatilbúnaðinum.

Heildarhagsmunir 

Ástæðulaust er að gera litið úr þeim hagsmunum. En horfa verður á málið út frá öðrum mikilvægum hagsmunum líka. Þar er þjóðarhagur mikilvægastur. Aukin framleiðsla sem skilar tugum milljarða króna í auknar útflutningstekjur á ári, reyndar margfalt meira en t.d góð loðnuverðtíð gefur, er þjóðinni nauðsynleg til að viðhalda góðum lífskjörum og geta bætt þau. Fyrir Vestfirði þarf ekki að tíunda þau jákvæðu áhrif sem þegar eru orðin og munu geta margfaldast.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að laxeldi og stangveiði eru ekki andstæður. Laxeldi á Vestfjörðum er leyft þar sem laxastofnar eru litlir og gefa lítið af sér. Það er bannað víðast hvar annars staðar á landinu til þess að hlífa helstu laxastofnum landsins. Dómstólar hafa til dæmis tekið með skýrum hætti þá afstöðu að veiðiréttarhafar fjarri Vestfjöðrum eigi ekki lögmæta hagsmuni að verja þegar kemur að laxeldi á Vestfjörðum og hafa vísað málum frá dómi af þeim sökum. Með öðrum orðum  þá er það mat dómstóla að laxeldi á Vestfjöðrum ógni ekki hagsmunum veiðiréttarhafa í Borgarfirði svo dæmi sé tekið.

Áhlaup stjórnarmanna og framkvæmdastjóra IWF gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi gengur gegn niðurstöðu dómstóla  og er tilraun til þess að knýja stjörnvöld til áframhaldandi banns. Þar er of langt gengið í hagsmunagæslunni. Vestfirðingar geta ekki unað þessu ofríki innlendra og erlendra peningamanna.

-k

 

 

 

DEILA