Strandabyggð: kaupir hluti og leggur til fé í fasteignafélag

Verslunarhúsnæði KSH á Hólmavík sem verður frá og með í dag rekið undir nafni Samkaupa. Mynd: Jón Halldórsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur keypt 19,2% hlut Sparisjóðs Strandamanna í fyrirtækinu Hornsteinum fasteignafélagi. Að auki keypti Strandabyggð 13% af eignarhlut Kaupfélags Strandamanna Hólmavík  í Hornsteinum og lagði að auki inn 3 milljónir í nýtt hlutafé. Strandabyggð á nú samtals 44,16% hlut í Hornsteinum.

Fasteignafélagið keypti síðan húseignir KSH að Höfðatúni 4 og nú hefur verið gerður langtíma leigusamningur við Samkaup um leigu á húsnæði fyrir matvöruverslun. Vínbúðin leigir einnig áfram aðstöðu í húsinu.

Til þess að fjármagna þessi kaup, seldi sveitarfélagið Sparisjóði Strandamanna húseignina Hafnarbraut 19, efri hæð.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Strandabyggðar.  Upplýst er að efni trúnaðarfundar sveitarstjórnar, sem haldinn var 27. janúar hafi verið um þessi viðskipti.

Fundargerðin hefur ekki verið birt ennþá.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að keyptur hlutur Sparisjóðs Strandamanna í Hornsteinum, 19.2% hafi verið að nafnverði kr. 2.688.000 og keypt hafi verið 13% hlutafjár Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Hornsteinum að nafnverði kr. 1.820.000.

Að auki lagði sveitarfélagið fram 3 m.kr.

Á móti fékk Strandabyggð 14.500.000 kr fyrir söluna á Hafnarbraut 19, efri hæð.

 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

 

DEILA