Samkaup til Hólmavíkur

Samkaup hf  hefur keypt verslunarrekstur Kaupfélags Steingrímsfjarðar. Samkomulagið milli Samkaup og KSH felur jafnframt í sér að Samkaup mun yfirtaka ráðningarsamninga við verslunarstarfsfólk KSH á Hólmavík.

Hornsteinar fasteignafélag hefur keypt fasteignir Kaupfélagsins á Hólmavík og leigir húsnæði áfram til Samkaupa, ÁTVR og KSH, en stærsti hluthafi Hornsteina er Strandabyggð. Að öllu óbreyttu rekur KSH áfram Pakkhúsið.

Áætlað er að yfirtaka verslunarrekstursins eigi sér stað miðvikudaginn 26. febrúar 2020. Með þessum breytingum er markmiðið að verslun og þjónusta við íbúa og vegfarendur haldist óskert segir í tilkynningu frá Kaupfélaginu.

Matthías Lýðsson, stjórnarformaður Kaupfélagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að forgangsatriðið væri að þjónustan myndi ekki skerðast  og að hefði verið tryggt með samningunum við Samkaup. Þá sagði Matthías að mikilvægt væri að heimamenn hefði meirihluta í Hornsteinum fasteignafélagi með innkomu Strandabyggðar í félagið.