Reykhólar: framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið samþykkt í nefnd

Sveitarstjórnarmenn á fundi um vegamálin á Reykhólum.

Skipulags, – hafnar- og húsnæðisnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að leggja till við sveitarstjórnina að fallast á framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðaveg (60) á milli Bjarkalundar og Skálaness, svokölluð leið Þ-H. Tveir nefndarmenn,  Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Eiríkur Kristjánsson standa að afgreiðslunni en Ingimar Ingimarsson, oddviti sat hjá.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í byggingu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi, byggingu nýs Djúpadalsvegar í austanverðum Djúpafirði og endurbyggingu Gufudalsvegar í vestanverðum Gufufirði, ásamt efnistöku fyrir framkvæmdirnar.

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins telur brýna nauðsyn bera til að ráðast í  samgöngubætur á svæðinu og telur skilmála sem fram kom í framkvæmdaleyfinu ásættanlega þrátt fyrir rask á umhverfi.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um drögin að framkvæmdaleyfi segir að breytingar sem gerðar hafi verið á framkvæmdinni að kröfu sveitarstjórnar og landeigenda séu til bóta. Náttúrufræðistofnun Íslands er gagnrýnni í umsögn sinni og vill setja þau skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að frekari vöktun fulga fyrir og eftir framkvæmdir fyrir rauðbrystinga og álftir fari fram.

Afgreiðsla erindis Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fer næst til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar sem tekur það fyrir á morgun, þriðjudag 25. febrúar 2020.

DEILA