Norðvesturkjördæmi: Miðflokkurinn karlaflokkur og Vg kvennaflokkur

Frá laxeldi í Arnarfirði. Mynd: Arnarlax.

Í greiningu Gallup á fylgi stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi kemur fram að Miðflokkurinn hefur mest fylgi meðal karla eða 26%. Sjálfstæðisflokkurinn fær mest fylgi kvenna og er með 23%. Það er verulegur kynjamunur á fylgi Miðflokksins og Vinstri grænna. Miðflokkurinn nýtur aðeins stuðnings 12% kvenna. Það þýðir að um 2/3 hlutar 20% fylgis Miðflokksins er frá körlum og aðeins um 1/3 fylgisins kemur frá konum.

Þessu er öfugt farið hjá Vinstri grænum. þeir fá fylgi 17% kvenna en aðeins 7% karla. Samsetning fylgisins eftir kynjum er ríflega 2/3 frá konum og tæplega 1/3 frá körlum.

Fylgi annarra flokka er mun jafnara meðal kynja, en þó eru bæði Samfylking og Píratar með heldur meira fylgi meðal kvenna en karla og Framsóknarflokkurinn hefur meira fylgi frá körlum en konum.

Sjálfstæðisflokkurinn efstur meðal tekjuhærri

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mest fylgi allra flokka í fimm tekjuflokkum frá 550 þúsundum króna mánaðatekjum. Mest er fylgið 30% í tekjuhópi 800 – 999 þúsund krónur.

Í lægsta tekjuhópnum, sem er með tekjur lægri en 400 þúsund krónur er Framsóknarflokkurinn með mest fylgi 22% og í næsta tekjuflokki frá 400 þúsund kr. til 550 þúsund kr. er Miðflokkurinn langsterkastur með 30% fylgi.

Fylgi Vinstri grænna og pírata fylgir svipuðu mynstri , það er mest í tekjulægstu hópunum og minnkar með hækkandi tekjum. Fylgi Samfylkingarinnar er langmest í tekjuhópnum frá 1 milljón til 1249 þúsund krónur á mánuði. Í þeim hópi nýtur flokkurinn stuðnings 16% kjósenda. Svo kemur verulega á óvart að Viðreisn sem fær lítið fylgi í heild mælist með 14% fylgi hjá tekjuhæsta hópnum.

Ungir velja Sjálfstæðisflokk og Miðflokk

Í yngsta aldurhópnum 18-24 ára er mest fylgi við Sjálfstæðisflokkinn 27% en framsóknarflokkurinn er ekki langt undan með 23% og Vinstri grænir með 19%. Í næsta aldursflokki 25 -34 ára hefur Miðflokkurinn algera yfirburði með 31% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er næstur með 18% og Píratar með 16%.

Alls er Sjálfstæðisflokkurinn sterkastur í þremur aldurshópum og Miðflokkurinn hefur mest fylgi í tveimur.  Fylgi Vinstri grænna er mest í yngsta hópnum og minnkar með vaxandi aldri. Samfylkingin hefur helst fylgi meða 45 ára og eldri og lítið hjá yngra fólki. Fylgi Pírata er einkum hjá fólki 25 -44 ára.

Menntun eykur fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna

Sé litið á sundurliðunina eftir menntun kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur eru sterkastir hjá þeim sem eru með grunnskólapróf og framhaldsskólapróf. Annað mynstur sést hjá háskólamenntuðum. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi 26%, en Vinstri grænir fá 19% og samfylkingin 16% hjá þeim hópi kjósenda, sem er tvöfalt meira fylgi en í hinum menntahópunum tveimur.

Um var að ræða netkönnun sem framkvæmd var 28. október 2019 – 2. febrúar 2020. Í úrtaki voru einstaklingar búsettir í Norðvesturkjördæmi, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Í úrtali voru 2501. Þeir sem ekki svöruðu voru 1184.  Fjöldi svarenda var 1317. Þátttökuhlutfall 52,7%.

 

 

DEILA