Fimmtudaginn 27. Febrúar verða haldnir hátíðartónleikar í Hömrum. Það eru þeir bræður Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach sem bjóða til hátíðartónleika í tilefni þess að um þessar mundir eru 210 ár liðin frá fæðingu Chopin.
Mikolaj Ólafur píanóleikari og Maksymilian fiðluleikari munu þar leika mörg fegurstu verka Chopin og eru allir velkomnir á þessa skemmtilegu tónleika sem verða fimmtudaginn 27.febrúar kl 20:00 í Hömrum.
Aðgangur er ókeypis en verkefnið er á vegum Vestfjarðastofu.
Mikolaj Ólafur Frach fæddist á Ísafirði árið 2000. Hann hóf píanónám hjá móður sinni, Iwonu Frach, sex ára gamall við Tónlistarskóla Ísafjarðar en nú stundar hann nám hjá próf. Janusz Olejniczak við Chopin-tónlistarháskólann í Varsjá. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna í tónlistarkeppnum hér heima og erlendis, meðal annars fyrstu verðlaun í píanókeppni Íslandsdeildar EPTA árið 2016 og fyrstu verðlaun í F. Chopin-píanókeppninni í Reykjavík 2019 en þar hlaut hann einnig verðlaun fyrir besta flutning á verki eftir Chopin, einnig er hann verðlaunahafi á Nordic Piano Competition í Ingesund 2019. Mikolaj hélt sína fyrstu einleikstónleika aðeins tólf ára gamall og hefur síðan komið reglulega fram bæði á Íslandi og erlendis en síðastliðið hefur hann spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar.
Maksymilian Haraldur Frach er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Hann hóf fiðlunám fjögurra ára gamall við Tónlistarskólann á Ísafirði hjá föður sínum Janusz Frach og lauk þaðan
framhaldsprófi með hæsu einkunn. Síðan var hann nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur við Listaháskóla Íslands en frá haustinu 2016 stundar hann nám við Tónlistarakademíuna í Kraká undir handleiðslu próf. Mieczyslaw Szlezer. Hann er verðlaunahafi alþjóðlegra tónlistarkeppna m.a. Talents for Europe og hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum bæði á Íslandi og erlendis.