Kiwanis gefur til Glaðheima í Bolungavík

kristján Andri Guðjónsson og Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd: Sigurður Bjarki

Félagar í Kiwanisklúbbnum Básar halda áfram styrktarverkefnum sínum þennan veturinn. Markmið þeirra er að styrkja börnin á öllum leikskólunum á sínu svæði. Þetta eru leikskólarnir í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík.

Síðastliðinn föstudag komu þeir færandi hendi á leikskólann Glaðheima í Bolungarvík. Voru börnunum færð margvísleg áhöld sem nýtast til eflingar á hreyfiþroska þeirra. Ragnheiður Ragnarsdóttir leikskólastjóri þakkaði fyrir góða gjöf um leið og hún veitti henni viðtöku.

Sagði hún frá því að um þessar mundir væri í samstarfi við landlæknisembættið unnið að því að Glaðheimar verði heilsueflandi leikskóli. Mun þessi gjöf koma að góðum notum við það starf skólans.

Forseti Kiwanisklúbbsins Bása sagði frá því að aukin drift hafi verið í starfi klúbbsins í vetur. Fjölgað hefur í klúbbnum og eru allir sem áhuga hafa að starfa með honum að góðum málum velkomnir.

Básafélagar eru engan veginn hættir og stefna ótrauðir að halda áfram að láta gott af sér leiða. En ekkert af þessu væri mögulegt nema með góðum stuðningi almennings. Vill forseti þakka öllum þeim sem sótt hafa fjáraflanir klúbbsins, sem og öðrum velunnurum hans.

DEILA