Ísafjarðarbær: ráðning bæjarstjóra samþykkt 5:0

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að ráða Birgi Gunnarsson sem bæjarstjóra og ráðningarsamning við hann með 5:0. Í listinn sat hjá. Áætlað er að Birgir hefji störf 1. mars n.k.

Í bókun Í listans segir að Framsóknarflokkurinn hafi tvíbrotið kosningaloforð sitt sem var að auglýsa eftir og ráða hæfasta umsækjandann. Þá segir í bókuninni að sérkennilegt sé að útvega nýráðnum bæjarstjóra íbúðarhúsnæði í Sindragötu 4a sem ætlað sé fyrir tekjulága. Segir ennfremur að meirihlutinn skuldi „íbúum Ísafjarðarbæjar skýringar á því hversvegna bæjarbúar þurfa að niðurgreiða íbúð fyrir nýráðinn bæjarstjóra.“

Í svarbókun frá meirihluta bæjarstjórnar segir að húsnæðismál bæjarstjóra séu ekki til umfjöllunar hér og að  engin ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum, hHvorki um leiguverð né umrædda leigu.

 

Bókun Í listans:

„Bæjarfulltrúar Í-listans sitja hjá við afgreiðslu tillögu um ráðningu nýs bæjarstjóra.
Sú leið meirihluta bæjarstjórnar, að handvelja bæjarstjóra, vekur athygli.
Með þessu hefur Framsóknarflokknum, á aðeins 20 mánuðum, tekist að tvíbrjóta sitt stærsta kosningaloforð, að auglýsa eftir og ráða hæfasta umsækjandann í starfi bæjarstjóra.
Sérkennileg er sú nýlunda meirihlutans að láta Ísafjarðarbæ útvega nýráðnum bæjarstjóra íbúðarhúsnæði, með því að taka stóru íbúðin í Sindragötu 4a af sölu til afnota fyrir bæjarstjóra. Í-listinn hefur þegar óskað eftir upplýsingum um leigukjör og fleira sem tengist þessari ráðstöfun. Í ljósi þess að fulltrúar meirihlutans hafa lýst því yfir að þeirra vilji sé að fækka íbúðum í eigu sveitarfélagsins, er sú ákvörðun að taka umrædda íbúð úr söluferli mjög sérstök. Einnig er þessi ákvörðun í ósamræmi við gildandi fjárhagsáætlun, þar sem gert er ráð fyrir sölutekjum af þessari íbúð.
11 íbúðir af 13 í fjölbýlishúsinu Sindragötu 4A, voru ætlaðar á leigumarkað með tekjulága einstaklinga sem markhóp. Hinar tvær voru alla tíð ætlaðar til sölu á almennum markaði. Nú er meirihlutinn ekki aðeins búinn að setja allar ætlaðar leiguíbúðir á sölu, heldur líka taka aðra söluíbúðina af sölu til að koma í útleigu. Skilaboðin eru augljós, meirihlutinn ber engar skyldur gagnvart tekjulágum hópum en er umhugað um þá sem teljast til hátekjuhópa. Meirihlutinn skuldar ekki bara Íbúðalánasjóði skýringar á því hvað varð um þörfina fyrir leiguíbúðir fyrir tekjulága, heldur skuldar meirihlutinn líka íbúum Ísafjarðarbæjar skýringar á því hversvegna bæjarbúar þurfa að niðurgreiða íbúð fyrir nýráðinn bæjarstjóra.
Nýráðinn bæjarstjóri ber ekki ábyrgð á axarsköftum meirihluta bæjarstjórnar. Birgi Gunnarssyni óskum við velfarnaðar í sínu starfi fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.“

Bókun meirihlutans:

„Húsnæðismál bæjarstjóra eru ekki til umfjöllunar hér og hefur engin ákvörðun verið tekin í þeim efnum. Hvorki um leiguverð né umrædda leigu. Rétt er að fyrirætlanir eru um að leigja honum umrædda íbúð sem hefur verið í byggingu í 20 mánuði og sölu í langan tíma. Ljóst er að umræddur aðili er að flytja hingað með 2 ára starfssamning og því er okkur ljúft og skylt að aðstoða viðkomandi með að leysa húsnæðismál hans eins og oft er gert.“

DEILA