Hvalárvirkjun: Strandabyggð frestar umsögn

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir erindi frá skipulagsfulltrúa Árneshrepps þar sem kynnt eru breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Árneshrepps vegna væntanlegrar Hvalárvirkjunar.

Sveitarstjórnin frestaði því að gefa umsögn um málið. Aðspurður um ástæður frestunarinnar sagði Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar að einstaka sveitarstjórnarmenn vildu skoða umrædd gögn betur. Ekki liggur fyrir hvenær umsögnin verður afgreidd.

Fram kom á Fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var á Hólmavík í haust að tveir fulltrúar í sveitarstjórn Strandabyggðar greiddu þar atkvæði gegn ályktun til stuðnings Hvalárvirkjun. Ályktunin var engu að síður samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atvæða.

Ísafjarðarbær hefur þegar afgreidd umsögn fyrir sitt leyti og gerir ekki athugasemdir við áformin.

Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananenshrepps sagði að málið yrði tekið fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar.  Finnur sagðist gera frekar ráð fyrir því að sveitarstjórnin gerði ekki athugasemdir við virkjunaráformin.

DEILA