Halldór Hermannsson

Hann var pabbi hennar Rönku skólasystur minnar og hefði af þeirri ástæðu einni verðskuldað ríkulega virðingu um aldur og ævi. En það var ekki allt. Svo víða kom hann við í lífinu, þar sem svo sannarlega um hann munaði, að einhvern tímann var það fært í letur að hann hlyti að vera stofnun eða hópur manna, hann Halldór Hermannsson.

Búandi á næsta fjörukambi við hann á Eyrinni fylgdi hann manni frá fyrstu tíð. Án vafa hef ég heyrt í honum löngu áður en ég sá hann fyrst. Hann þurfti ekki að sjást til þess að tekið væri eftir honum eða menn fyndu fyrir honum.

Okkar fyrstu formlegu samskipti voru þegar stýrimaður í róðrarsveit nemenda Gagnfræðaskólans hélt til fundar við hann á Sjómannastofunni í Alþýðuhúsinu að morgni sjómannadags. Hann var þá allt í öllu eins og oft áður við skipulagningu dagsins. Hann fór yfir skipulag róðursins með stýrimönnum.

Nokkurt stress var í gangi á fundinum því leit stóð yfir að öðrum bátnum. Sá hafði horfið í blíðviðri næturinnar. Um síðir bárust þó fréttir á fundinn að báturinn væri fundinn lengst inni í firði, í fjörunni innan við Brúarnesti. Létti þá Dóra Hermanns nokkuð og von bráðar hló hann dátt að þessu veseni. Taldi víst að menn á kenndiríi hefðu tekið bátinn traustataki og róið í næturkyrrðinni. Ekki hefði hann þurft nema rétt að horfa í augu mín á þeirri stundu til þess að sjá sektarkenndina sem gróf um sig. Ekki var kjarkur á þeirri stundu til þess að játa strákapörin. Til þess var málið alltof flókið. Báturinn var nefnilega tekinn traustataki af góðglöðum skólasystkinum dóttur hans er fögnuðu próflokum. Förinni var heitið í miðnæturteiti í sumarbústað hans sjálfs í Tunguskógi. Að veisluhöldum loknum hafði fjarað undan bátnum. Sannleikurinn þarf sinn tíma. Nú er hann kominn fram og ég veit að málið er bæði fyrirgefið og fyrnt.

Þegar rækjuiðnaðurinn á Ísafirði komst í þrot snemma á tíunda áratug síðustu aldar hóaði Halldór Hermannsson í hóp manna til endurreisnar. Að sjálfsögðu var hópurinn nefndur eftir honum, Vinir Dóra. Þá hófst samstarf okkar og um nokkurra ára skeið vorum við nánir samstarfsmenn. Sá tími var krefjandi en mikið óskaplega var skemmtilegt og gefandi að umgangast nafna. Vinnugleðin, sögustundirnar, stjórnmáladeilurnar, greinaskrifin, að ég tali nú ekki um þegar það brast á með söng. Sá sem upplifði söng Dóra Hermanns á góðri stund varð aldrei samur.

Með sínu eftirminnilega göngulagi skildi nafni minn eftir djúp og varanleg spor við Djúp. Ekki síst á Ísafirði. Við leiðarlok þakka ég Halldóri Hermannssyni samfylgdina og sendi Kötu og þeirra fólki öllu innilegar samúðarkveðjur.

Halldór Jónsson

DEILA