Flateyri: 53 m.kr. tjón á sundlaug – 30 m.kr. bætt

Lagt hefur verið fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar minnisblað frá VÍS um bætur vegna tjóns á Sundlaug Flateyrar sem varð 27. febrúar 2019. Rör gaf sig í þakrými yfir þjónusturými í sundlaug Flateyrar. Í greinargerð Tækniþjónustu Vestfjarða kemur fram að tjónið er metið á um 53 milljónir króna. Skemmdir urðu á þakklæðningu og sperrum vegna lekans og reyndist hættulegur myglusveppur í klæðningu, sperrum og einangrun.

Var því talið að rakinn hafi verið til staðar lengi og leitt af sér skemmdir áður en hitarör fór að leka í fyrra.

Niðurstaðan er að vátryggingarnar bæta fyrir viðgerð þaks yfir þjónusturými kr. 17.304.000. og  fyrir skemmdir innanhúss sem eru ekki hluti þakvirkja er kr. 6.282.000.

Bætur fyrir viðgerð sundlaugarþaks er hlutfallað miðað við ástand þaks áður en til tjóns kemur og eru bætur miðaðar við 22% af kostnaði við viðgerð og endurnýjun þess, eða kr. 6.414.000 af 29,8 m.kr. kostnaði. Samtals nema bæturnar um 30 milljónum króna af 53 milljón króna viðgerðarkostnaði.

DEILA