Fjölmennur íbúafundur Arctic Fish á Þingeyri

Frá íbúafundinum í gær. Myndir: Steinunn Guðný Einarsdóttir.

Arctic Fish boðaði til íbúafundar á Þingeyri í gær og lögðu um 40 manns leið sína í Blábankann til að hlýða á og ræða um starfsemi og uppbyggingu fyrirtækisins á Vestfjörðum.

Kynnt var matsskýrsla Arctic Fish um fyrirhugaða aukningu fiskeldis fyrirtækisins í Dýrafirði upp í 10 þús. tonn auk þess sem farið var yfir stöðuna og framtíðaráform. Eftir þessa stuttu kynningu var opnað fyrir umræður og að vanda stóð ekki á Vestfirðingum að bera fram spurningar um eldið en starfsmenn fyrirtækisins tóku einnig virkan þátt í umræðum og skiptu svörum á milli sín eftir sérsviðum þeirra.

Rætt var um kærur sem lagðar hafa verið fram vegna útgefinna leyfa til sjókvíaeldis forsvarsmenn Arctic Fish skýrðu þá stönrgu vegferð  sem fiskeldisfyrirtæki þurfa að  feta í leyfismálum. Afleidd störf og tækifæri sem eldið skapar á svæðinu voru mikið rædd með tilliti til þess hvað heimamenn geta gert til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu sem eldið hefur í för með sér.

Þá höfðu fundargestir áhuga á að vita hver áhrif eldisins væru á lífríkið og hvernig fyrirtækið vaktar umhverfið. Framsögumenn bentu á að íslenskar aðstæður eru ólíkar aðstæðum í nágrannalöndum okkar og ekki alltaf samanburðarhæfar og að  mikil þekking hefur skapast hér heima en fyrirtækin eru þó enn að læra. Þá var rifan á eldiskví í Dýrafirði sem nýlega kom í ljós rædd og útskýrð meðal annars með myndum, auk þess að rætt var hvernig veðurfarið hefur farið með laxinn í kvíunum.

Almenn ánægja var meðal fundargesta um fundinn og fiskeldið almennt. Var fyrirtækið hvatt til að halda fleiri fundi en mikill áhugi er fyrir því að fræðast meira um eldið.

 

DEILA