Fjölgað hjá Fjölmenningarsetri með útibúi á höfuðborgarsvæðinu

Lagt hefur verið  fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar frumvarp frá barna- og félagsmálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni um  víðtækara hlutverk Fjölmenningarseturs, sem er á Ísafirði,  með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks.

Segir í greinargerð með frumvarpinu að vegna  mikillar fjölgunar flóttafólks á síðustu árum „er mikilvægt að ríki og sveitarfélög tryggi því samfellda og jafna þjónustu. Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins og nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum en jafnframt sjá til þess að það fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu hvort sem það er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum.“

Þar kemur ennfremur fram að  nauðsynlegt er að stofnunin, sem staðsett er á Ísafirði, „verði einnig með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu þar sem einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd dvelja nær allir á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum. Fulltrúar Fjölmenningarseturs munu þurfa að hitta viðkomandi flóttafólk og leggja fyrir það tilboð um móttökusveitarfélag. Áætlað er að hið aukna hlutverk Fjölmenningarseturs muni kalla á tvö stöðugildi til lengri tíma litið auk kostnaðar vegna fastrar starfsaðstöðu starfsmanna í Reykjavík. Mun árlegur rekstrarkostnaður Fjölmenningarseturs að líkindum hækka um 19,4 millj. kr.“

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókar að það fagni áætlun um að efla starfsemi Fjölmenningarseturs.

DEILA