Ellis Ludwig-Leone, tónskáld og píanóleikari tók upp myndlistarband á Ísafirði

Ellis Ludwig-Leone tónskáld og píanóleikari. Mynd: aðsend.

Bandarísku hljómsveitinni San Fermin vegnar vel vestanhafs og um þarsíðustu helgi (31. jan.-3. feb.) var Ellis Ludwig-Leone, tónskáld og píanóleikari forsprakki hljómsveitarinnar ásamt teymi frá Sony útgáfunni á Ísafirði við upptökur á tónlistarmyndbandi fyrir lag á nýjustu plötu hljómsveitarinnar.

Ágúst Atlason og Ásgeir Helgi Þrastarson hjá Gústi Productions voru þeim innan handar við tökur alla helgina.

Ísfirðingurinn Halldór Smárason kynntist Ellis fyrir 8 árum á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði. Sumarið eftir fluttist halldór  til New York, og hafa þeir haldið vinskap síðan. Þessi kynni urðu svo til þess að Ellis kom vestur til Ísafjarðar um síðustu helgi.

Fyrir milligöngu Halldórs gafst Bæjarins besta kostur á að leggja fyrir Ellis nokkrar spurningar.

„Ég kom fyrst til Ísafjarðar árið 2012 á tónlistarhátíðina Við Djúpið og fann strax að staðurinn átti vel við mig. Ég eignaðist nokkra góða vini og samdi tónlist og vissi strax að ég myndi vilja eyða meiri tíma á þessum fallega stað.

Það tækifæri kom árið 2018, þegar ég dvaldi á Ísafirði í mánuð til að semja tónlist fyrir hljómsveit mína, San Fermin. Þessi lög urðu að The Cormorant, tvískiptri plötu sem Sony Masterworks gefur út. Fyrri hluti plötunnar var gefinn út á síðasta ári og mun seinni hlutinn koma út í vor. Fyrir útgáfu plötunnar langaði mig að gera tónlistarmyndband á þeim stað sem hafði innblásið þessi lög. Halldór Smárason, vinur minn frá Ísafirði, tengdi mig við Ágúst Atlason og Ásgeir Helga Þrastarson, sem hjálpuðu mér að framleiða myndbandið.

Tónlistarmyndbandið var gert nú í janúarlok og augljóslega skapaði það vissa áhættu. Ef veðrið hefði verið jafnslæmt þá og fyrri hluta mánaðarins er ég ekki viss um hvað við hefðum gert! Til allrar hamingju fengum við tvo fallegustu daga ársins, var mér sagt. Í myndbandinu er hjólreiðakonu fylgt eftir hvar hún hjólar um Skutulsfjörð. Í lokin tekur hún eftir annarri manneskju á hjóli sem lítur óþægilega kunnuglega út. Hún eltir manneskjuna og í lok myndbandsins nær hún viðkomandi – en sér þá að dularfulla veran var í rauninni hún sjálf. Þetta er hugmyndin um það þegar maður eltir ákveðna ímynd af sjálfum sér sem er í raun aldrei raunhæft og ógerlegt að uppfylla.“

DEILA