Arnarlax: meiri afföll við Hringsdal

Frá laxeldi í Arnarfirði. Mynd: Arnarlax.

Arnarlax hefur tilkynnt um meiri afföll á eldislaxi við Hringsdal en gert var ráð fyrir. Í tilkynningu á vef fyrirtækisins kemur fram að ástand fisks á Tjaldanesi, Laugardal og Þúfnaeyri sé hins vegar með miklum ágætum.

Ástæður aukinna affalla eru veðurfarslegar. En vegna ótíðar hefur gengið erfiðlega um nokkurra vikna skeið að koma afurðum frá Bíldudal á markað og því hefur þurft að draga úr slátrun á fiski sem er orðinn tilbúinn til slátrunar og einnig hefur gengi verr að sækja fiskinn í kvíarnar. Fyrir vikið drepst meira af fiski og er talið að afföllin séu um 100 tonn.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax segir í viðtali við Bæjarins besta að afföllin séu innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir yfir árið í rekstrarforsendum og ekki ástæða til að breyta þeim. Gert er ráð fyrir að Arnarlax framleiði um 10 þúsund tonn á árinu svo afföllin nú eru um 1%.

Skip á vegum Hrodafor verða mánaðarlega í Arnarfirði þar sem melta er unnin úr afföllum samkvæmt ströngum stöðlum, en dauður lax er unninn í meltu.

Nótnaskipið Sighvatur Bjarnason var fenginn tímabundið til að aðstoða til við meltugerð og brunnbáturinn Akvaprins mun ásamt Viking Saga flytja fisk til vinnnslu á Bíldudal og þar sem afköst verða aukin verulega næstu daga.  Að auki er sláturskipið Norwegian Gannet á leið til landsins til að aðstoða tímabundið við slátrun en um er að ræða eitt fullkomnasta sláturskip í heimi að sögn Kjartans. Hann segir að það hafi kostað um 80 milljónir evra sem er mun meira en dýrasta og fullkomnasta skipið í íslenska fiskiskipaflotanum.

Framleiðsluáætlanir fyrir önnur eldissvæði eru óbreyttar og gert er ráð fyrir að heildar uppskera Arnarlax og Arctic Fish sem unnin verður á Bíldudal verði um 18.000 tonn í ár en var um 13.000 tonn í fyrra.

DEILA