Traustur stuðningur við virkjun á Vestfjörðum

Í tveimur viðamiklum könnunum, sem framkvæmdar hafa verið undanfarin ár, hefur verið traustur meirihluti þeirra, sem afstöðu taka, fyrir vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.

Í gær var upplýst að umhverfisráðherra  hyggðist leggja fram í næsta mánuði óbreytta rammaáætlun 3 sem verkefnisstjórn skilaði af sér til stjórnvalda vorið 2016. Í áætluninni eru tveir vatnsaflsvirkjunarkostir á Vestfjörðum sem eru flokkaðir í nýtingarflokk, Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun. Áætlunin hefur tvisvar verið lögð fram áður af öðrum umhverfisráðherrum og þarf ekki að endurtaka umsagnarferlið. Einfaldar það framvindu málsins í vetur.

Unnin var viðamikil könnun um afstöðu almennings til virkjunar ýmissa kosta og fylgdu niðurstöðurnar með rammaáætlun 3. Það var Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem framkvæmdi könnunina.

Vildu aðeins virkja á Vestfjörðum

Athyglisvert er að aðeins einn vatnsaflsvirkjunarkostur af nokkrum sem spurt var um naut meirihlutastuðnings þeirra sem afstöðu tóku. Það var vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.

Eins og sjá má var yfirgnæfandi stuðningur við vatnsaflsvirkjun virkjun á Vestfjörðum 42% lýstu sig hlynnta en aðeins 26% andvíga.

Þessi niðurstaða er verulega frábrugðin svörum við fjóra aðra vatnsaflsvirkjunarkosti á landinu sem einnig var spurt  um. Í öllum þeim tilvikum var meirihluti þeirra sem afstöðu tók andvígur viðkomandi kosti, þótt munurinn væri reyndar ekki mikill. Frekari virkjun í Þjórsá voru 33% hlynntir en 39% andvígir, virkjun í Skjálfandafljóti voru 30% hlynntir og 34% andvígir, virkjun í Skagafirði voru 31% hlynntir en 32% á móti og loks vatnsaflsvirkjun í Skaftárhreppi  voru 29% hlynntir en 34% á móti.

Meiri stuðningur og minni  andstaða

Vestfjarðavirkjun hefur mun meiri stuðning en hver hinna og er munurinn 9 – 13%.  Andstaðan er líka minni en við sérhvern hinna fjögurra og munar 6 – 13%.

Hlynntir umfram andvíga eru 16% varðandi virkjun á Vestfjörðum en í hinum kostunum eru frá 1 – 5% fleiri andvígur. Munurinn er því frá 17% – 21% sem stuðningurinn við vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum eru meiri en annars staðar.

Sérstaklega er ástæða til að vekja athygli á því að stuðningurinn við virkjun á Vestfjörðum er meiri en andstaðan bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru 36% sem styðja virkjun á Vestfjörðum og 29% á móti. Á landsbyggðinni er stuðningurinn enn meiri eða 49% og andstaðan aðeins 20%.

Ekki var spurt sérstaklega um Hvalárvirkjun en þar sem kostirnar á Vestfjörðum voru tveir, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun, verður að telja að svarendur hafi vitað það og haft þá báða í huga þegar svörin voru gefin.

Vilja virkja á hálendi fjarri byggð

Afstaðan til virkjunar á Vestfjörðum rímar ágætlega við svörin við annarri spurningu. Leitað var eftir því hvar svarendur vildu virkja.  Af nokkrum möguleikum reyndist mestur vilji til þess að virkja á hálendi fjarri byggð. Þar vildu  43%  virkja en 33% voru á móti. Lítill stuðningur var við vatnsaflsvirkjun á láglendi nærri byggð, aðeins 29% studdu það en 43% voru andvíg.

Meirihlutastuðningur við Hvalárvirkjun 2019

Þremur árum síðar lét Vestfjarðastofa Gallup gera könnum um afstöðu almennings til Hvalárvirkjunar. Könnunin var framkvæmd í mars 2019. Niðurstaðan var svipuð og þremur árum áður. Alls  voru 41% landsmanna sem styðja Hvalárvirkjun og 31% voru andvíg. Það er merkilega nálægt fyrri könnuninni 42% – 26% þremur árum fyrr, en athuga ber að spurningin var ekki sú sama.

 

Traustur meirihlutastuðningur

Sé aðeins reiknað út frá þeim sem afstöðu tóku var stuðningurinn 2016 við vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum 62% og stuðningurinn við Hvalárvirkjun 2019 var 57%. Í báðum tilvikum er traustur meirihluti við virkjun vatnsaflsins á Vestfjörðum.

Nú hefur umhverfisráðherra, sem er andvígur Hvalárvirkjun greint frá því að hann mun leggja til að báðir virkjunarkostirnir á Vestfjörðum verði áfram í nýtingarflokki, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun og rökstyður ákvörðun sína með því að þetta sé málamiðlun. Hann metur það svo að það sé betra að fá stuðning við rammaáætlunina og tillögur í henni um verndunarflokkinn, sérstaklega hugmyndir um hálendisþjóðgarð en að halda áfram að berjast gegn Hvalárvirkjun.

Þessi niðurstaða er væntanlega fengin eftir samningaviðræður milli stjórnarflokkanna og endurspeglar þá niðurstaðan að Vinstri grænir hafa ekki fengið stuðning annarra stjórnarflokka við áframhaldandi opinbert stríð umhverfisráðherra og flokksins gegn Hvalárvirkjun og brýnum hagsmunum Vestfirðinga. Frá því hafa þó verið undantekningar og til dæmis sagði  Ari Trausti Guðmundsson, alþm Vg í sumar að Hvalárvirkjun væri í nýtingarflokki og vinna ætti út frá því.

Sé þetta rétt metið um afstöðu ríkisstjórnarflokkanna hefur einni veigamikilli hindrun verið rutt úr vegi og höfum það í huga, að traustur meirihluti landsmanna styður vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.

-k

 

DEILA